Erlent

Yfirgnæfandi meirihluti samþykkti líknardráp á börnum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Fylgst með á þingpöllum.
Fylgst með á þingpöllum. Vísir/AP
Umdeilt frumvarp um líknardráp á börnum var samþykkt á belgíska þinginu í gær með 86 atkvæðum gegn 44. Tólf þingmenn sátu hjá.

Belgía verður þar með fyrsta landið sem heimilar líknardráp án þess að tilgreina lágmarksaldur, en í Hollandi eru í gildi lög sem heimila líknardráp á börnum eldri en tólf ára, að því tilskildu að foreldri gefi samþykki sitt.

Skilyrði líknardráps í Belgíu verða þau að barnið sé haldið banvænum sjúkdómi, engin lækning sé möguleg og þjáningar séu óbærilegar. Þá þarf barnið að hafa ítrekað beðið um að fá að deyja, og foreldrar, læknar og geðlæknar þurfa að veita samþykki sitt áður en ákvörðun er tekin.

Samkvæmt skoðanakönnunum eru þrír af fjórum íbúum landsins sáttir við nýju lögin, en andstæðingar þess hafa harðlega gagnrýnt frumvarpið. Leiðtogar kirkjunnar hafa sagt lögin siðlaus.

Um sama leyti og þingmenn ræddu frumvarpið í gær tók lögreglan í Belgíu ákvörðun um að rannsaka þurfi hvort einn helsti talsmaður líknardráps í Hollandi, hin 81 árs gamla Els Borst-Eilers, hafi verið myrt.

Hún fannst látin á mánudag í bílskúr sínum.

Borst-Eilers var heilbrigðisráðherra Belgíu á árunum 1994 til 2002 og átti einna stærstan þátt í að belgíska þingið samþykkti lögleiðingu líknardráps árið 2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×