Erlent

Vilja draga Norður-Kóreu fyrir stríðsglæpadómstól

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, ásamt félögum sínum.
Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, ásamt félögum sínum. Nordicphotos/AFP
Rannsóknarnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur tekið saman gögn sem sýna að stjórnvöld í Norður-Kóreu hafi framið alvarlega glæpi gegn þjóð sinni, þar á meðal glæpi gegn mannkyni.

Þetta kemur fram í skýrslu sem kynnt verður á mánudaginn. Fréttastofan AP hefur fengið upplýsingar um innihald skýrslunnar frá tveimur einstaklingum, sem þekkja innihaldið vel.

Nefndin fer fram á að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna feli Alþjóðlega sakadómstólnum í Haag að höfða mál á hendur norður-kóreskum stjórnvöldum. Ólíklegt er þó að af málshöfðun verði þar sem Kína og ef til vill fleiri fastaríki í öryggisráðinu, sem hafa þar neitunarvald, hafa staðið gegn slíku áður.

Norður-kóresk stjórnvöld eru meðal annars sökuð um fjöldamörg mannrán í Suður-Kóreu og Japan.

Nefndin leggur einnig til að Allsherjarþing og Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna feli nýrri stofnun að fylgjast með mannréttindabrotum í Norður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×