Erlent

OECD segir að hækka þurfi laun hjá sænskum kennurum

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Jan Björklund, menntamálaráðherra Svíþjóðar.
Jan Björklund, menntamálaráðherra Svíþjóðar.
Hækka þarf laun kennara í Svíþjóð. Þetta er mat OECD, Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, sem beðin var um greiningu á sænskum skólum í kjölfar óvenju lélegs árangurs sænskra nemenda í síðustu PISA-könnun.

OECD bendir á að Svíar hafi lagt meiri áherslu á minni bekki í stað betri kennara. Niðurstöður rannsókna sýni að lítil tengsl séu milli árangurs nemenda og stærðar bekkja.

Stofnunin bendir jafnframt á að í löndum þar sem árangur í PISA-könnuninni hafi verið góður séu kennarar með hærri laun og hafi einnig möguleika á frama í starfi sem sé afar mikilvægt.

Sænskir fjölmiðlar greina frá því að Jan Björklund, menntamálaráðherra Svíþjóðar, hafi sagt augljóst að kennarastarfið þurfi að verða eftirsóknarverðara. Sveitarfélögin hafi ekki axlað ábyrgðina sem fylgdi því að taka við skólunum.

Haft er eftir yfirmanni menntamála hjá OECD, Andreas Schleicher, að allir kennarar eigi að hafa miklar væntingar til allra nemenda.

Nemendur í löndum sem koma vel út úr PISA-könnuninni segi að það sé þeirra eigin vinna, ásamt stuðningi kennara, sem leiði til góðs árangurs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×