Erlent

Musaveni reiddist hótunum Vesturlandabúa

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Karim Birimumaso vill fara til Úganda að fræða landa sína um samkyhneigð.
Karim Birimumaso vill fara til Úganda að fræða landa sína um samkyhneigð. Vísir/Valli

Ákvörðun Yoweris Museveni Úgandaforseta um að staðfesta umdeild lög um refsingu við samkynhneigð hafa vakið hörð viðbrögð víða um heim. Úgandabúar virðast þó almennt standa með forseta sínum í þessu máli, og furða sig mjög á þeirri hörku sem þeir telja Vesturlönd hafa sýnt Úganda.

Karim Birimumaso, Úgandamaður sem býr hér á landi, segir raunar að það hafi ekki síst verið óbilgirni Vesturlanda sem varð til þess að Museveni sá sér ekki annað fært en að undirrita lögin.

„Obama Bandaríkjaforseti hótaði því hvað eftir annað að slíta öllum samskiptum við Úganda,“ segir Karim. 

„Úgandamenn láta ekki þröngva sér til neins. Museveni varð bálreiður og þetta var meginástæða þess að hann undirritaði lögin. Hann lét ekki bjóða sér svona lagað.“

Burtséð frá því hvort forsetinn hafi, með öfugum formerkjum reyndar, látið þannig undan þrýstingi frá Vesturlöndum þá telur Karim rétt að hafa refsiákvæði í lögum um samkynhneigð.

Vandinn sé sá að samkynhneigðir vaði sumir hverjir í peningum og stundi það að fara í fátæk þorp, leiti þar uppi ungmenni og bjóði þeim peninga, menntun og jafnvel atvinnu fyrir að „gerast samkynhneigðir“ eins og Karim orðar það.

„Mér var sjálfum gert svona tilboð, en hafnaði því vegna þess að ég hef engan áhuga. En þetta er vandamálið sem þarf að stöðva.“ Karim telur þó að ævilangt fangelsi sé of hörð refsing. „Eitt, tvö eða þrjúár væri alveg nóg.“

Karim segist hins vegar hafa áttað sig á því, eftir að hafa búið hér í fjögur ár, að til sé fólk sem er fætt samkynhneigt. Hann hafi því mikinn hug á því að fara til Úganda til þess að fræða fólk þar um þessa staðreynd lífsins.

Hann viðurkennir að líf þeirra, sem „fæddir eru samkynhneigðir“, hafi vissulega orðið hættulegra í Úganda eftir að Museveni staðfesti lögin: „Auðvitað, segi ég, en þó ekki: Ef þú ert samkynhneigður og heldur þig heima við þá þarftu ekkert að óttast. Ef þú ert ekkert að angra annað fólk og bjóða fátækum peninga til þess að gerast samkynhneigðir, þá hefurðu ekkert að óttast,“ segir Karim.

Dagblað birti nöfn samkynhneigðra

Red Pepper, sem gefið er út í Úganda, birti í gær lista með nöfnum „200 helstu“ samkynhneigðu einstaklingum landsins. Á listanum eru bæði þekktir baráttumenn fyrir réttindum samkynhneigðra í Úganda en einnig einstaklingar, sem til þessa hafa ekki farið hátt með kynhneigð sína.

Daginn áður hafði Yoweri Museveni forseti undirritað lög um harða refsingu við samkynhneigð. Samkynhneigð var bönnuð fyrir, en nú liggur allt að ævilangt fangelsi við því að vera samkynhneigður.

„Nornafár fjölmiðlanna er aftur komið af stað,“ skrifaði Jacqueline Kasha, þekkt baráttukona fyrir réttindum lesbía og homma í Úganda, á Twitter-síðu sína.

Athugasemd ritstjórnar: Í kjölfar viðtalsins að ofan ræddi blaðamaður aftur við Karim þar sem hann sagðist hafa orðið fyrir aðkasti í kjölfar fyrra viðtalsins. Áréttar hann að hann hafi persónulega ekkert á móti samkynhneigðum. Það hafi hins vegar tekið hann nokkur ár að skilja að fólk geti fæðst samkynhneigt. Nú sé hann orðinn mikill áhugamaður um að tryggja mannréttindi samkynhneigðra í Úganda. Hann vilji til dæmis alls ekki sjá vini sína eða ættingja fara í fangelsi fyrir að vera samkynhneigðir.

Nánar hér.


Tengdar fréttir

„Ógeðslegt fólk“

„Hverslags fólk er þetta? Ég hafði ekki hugmynd um hvað þetta fólk var að gera en mér var sagt það nýlega og það er skelfilegt. Ógeðslegt,“ sagði forseti Úganda skömmu eftir að hafa skrifað undir frumvarp sem kveður á um lífstíðardóm fyrir samkynhneigð í landinu.

Segir lögin í Úganda mikil vonbrigði

"Íslensk stjórnvöld styðja réttindabaráttu hinsegin fólks á alþjóðavettvangi og það eru mér því mikil vonbrigði að þessi lög hafa nú tekið gildi,“ segir í tilkynningu frá Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra.

Birti lista með nöfnum samkynhneigðra

Dagblað birti í dag lista yfir "200 helstu homma" landsins í kjölfar undirritunar laga sem herða refsingar við samkynhneigð í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×