Menning

Konurnar dúndruðu hressilega í glerþakið

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Hallfríður Ólafsdóttir:
"Kallarnir sem ráða mestu um tónlistarumfjöllun muna flestir fyrst eftir strákunum.“
Hallfríður Ólafsdóttir: "Kallarnir sem ráða mestu um tónlistarumfjöllun muna flestir fyrst eftir strákunum.“ Vísir/Vilhelm
„Ég myndi nú vilja að áhuginn sem fólk sýnir þessu stafaði af því að ég er fær hljómsveitarstjóri, en ekki bara af því að ég er kona,“ eru fyrstu viðbrögð Hallfríðar Ólafsdóttur, sem á sunnudaginn stjórnaði félögum úr Sinfóníuhljómsveitinni fyrst íslenskra kvenna, þegar falast er eftir viðtali um þann merka áfanga í íslenskri tónlistarsögu.



Hallfríður hefur verið flautuleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands í sautján ár, auk þess að vera höfundur Maxímúsar músíkúsar og hafa í tæp tíu ár unnið við fræðsluverkefnið sem hann stendur fyrir. Hún lærði flautuleik í Royal Academy of Music í London og tók þar hljómsveitarstjórn sem hliðargrein. „Þar fékk ég leiðsögn um þetta fag. Síðan hef ég bara haft svo mikið að gera sem flautuleikari en hef af og til verið veifandi höndunum einhvers staðar og hef mikla ástríðu til þess að miðla tónlist. Þó þetta hafi verið litlir hópar sem ég hef verið að stjórna þá hef ég oft verið að vinna mjög flókin verkefni. Við höfum verið að spila nútímatónlist á Norrænum músíkdögum, Myrkum músíkdögum og víðar og það er alltaf gaman að gera eitthvað sem maður finnur að maður ræður við, það örvar mann til dáða. En ég hef ekki lagt neina ofuráherslu á að koma mér á framfæri sem hljómsveitarstjóra enda haft nóg að gera við að ala upp börnin, sinna fræðsluverkefninu með Maxímús og spila í Sinfóníuhljómsveitinni. Þetta tækifæri kom hins vegar á mjög hentugum tíma. Ég get alveg hugsað mér að fara að sinna þessum hluta tónlistarinnar meira og var þess vegna mjög fljót að bjóða mig fram í þetta verkefni fyrir tónleika Kítón.“



Hallfríður segir mjög marga gera sér grein fyrir því að tónlist kvenna fái minni athygli en karla en það séu líka margir sem neiti að horfast í augu við þá staðreynd. „Það er til dæmis mjög auðvelt að afgreiða málið með því að þetta sé ekki eins góð tónlist en við vitum nú flest að það er ekki málið. Kallarnir sem ráða mestu um tónlistarumfjöllun muna flestir fyrst eftir strákunum og strákarnir eru líka duglegri við að koma sjálfum sér á framfæri. Við konur erum varkárari með það, viljum ekki troða öðrum um tær og erum stundum of hógværar. Auk þess hefur verið sýnt fram á að konur eru gagnrýnni á sjálfar sig og ég er engin undantekning frá þeirri reglu. Þess vegna var ofsalega gaman að um leið og við vorum búin á fyrstu æfingunni fékk ég mikinn meðbyr, bæði frá kollegum mínum sem voru að spila hjá mér og eins frá sprenglærðum hljómsveitarstjóra sem sagði að ég væri „frábær hljómsveitarstjóri“ og hvatti mig til að gera meira af þessu.“



Konur eru ekki margar í stétt hljómsveitarstjóra, þótt það sé nú hægt og hægt að breytast, er hljómsveitarstjórnun kannski eitt síðasta glerþakið sem konur þurfa að brjóta? „Já, og mér fannst mikilvægt að við sýndum á þessum tónleikum að konur eru fullfærar um að stjórna og dúndruðum hressilega í glerþakið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.