Menning

Taka áheyrendur í tímaferð til Köben

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Í tilefni af tónleikunum teiknaði Halldór Baldursson mynd af Hallgrími Péturssyni eins og hann ímyndar sér að hann hafi litið út sem ungur maður.
Í tilefni af tónleikunum teiknaði Halldór Baldursson mynd af Hallgrími Péturssyni eins og hann ímyndar sér að hann hafi litið út sem ungur maður.
Hvaða tónlist heyrði Hallgrímur Pétursson á skólaárum sínum í Kaupmannahöfn? Þeirri spurningu hyggst Mótettukórinn svara á tónleikum sínum í Hallgrímskirkju á sunnudaginn klukkan 17.

Auk þess að syngja vel þekkta Hallgrímssálma býður kórinn áheyrendum í tímaferð til Kaupmannahafnar á fjórða áratug 17. aldar þegar hinn óharðnaði skagfirski unglingur gekk um götur borgarinnar.

„Eftir að sú hugmynd kom upp að leita að tónlist sem Hallgrímur hefði ungur heyrt í Kaupmannahöfn, í þeirri trú að hún hefði mótað hann sem listamann að einhverju leyti, fundum við gríðarlega fallega tónlist eftir samtímamenn hans; Danina Mogens Pedersøn og Thomas Schattenberg og Þjóðverjann Heinrich Schütz sem var eitt af stærstu tónskáldum snemmbarokksins í Þýskalandi.

Við lifum á þannig tímum að hægt er að finna upptökur og nótur á netinu sem mann hefði ekki órað fyrir að komast í tæri við,“ segir Hörður Áskelsson, stjórnandi Mótettukórsins, og tekur fram að miklir snillingar sitji í verkefnavalsnefnd kórsins.

Hörður segir dönsk tónskáld hafa verið send af kónginum suður í Evrópu til menntunar á sautjándu öld.

„Mogens Pedersøn, sem á býsna drjúgan hlut í þessari efnisskrá, lærði í Feneyjum sem var á þessum tíma mekka kirkjutónlistarinnar. Heinrich Schütz lærði þar líka og var undir sömu áhrifum. Hann var ein þrjú ár í Kaupmannahöfn á sama tíma og Hallgrímur og mjög líklega með skólapiltunum sem Hallgrímur var einn af. Þess vegna eru allar líkur á að þeir hafi hist,“ segir hann og telur engan vafa á að Hallgrímur hafi stundað messur í Frúarkirkjunni og tekið þátt í þeim.

Hörður segir 17. aldar efnið sem Mótettukórinn flytur á tónleikum sunnudagsins listilega vel skrifaða kórtónlist í snemmbarokkstíl. Á Íslandi hafi hins vegar ekki þekkst raddaður söngur á þeim tíma.

„Okkur finnst þetta afar skemmtileg stúdía, alger gæsahúðarupplifun,“ segir Hörður Áskelsson um rannsóknir Mótettukórsins á samtímatónlist Hallgríms.Anton Brink
„Hryggjarstykkið í efnisskránni er tónsetning í latneskri messu eftir Mogens Pedersøn. Svo byggjum við kringum hana alls konar tónlist við texta Hallgríms. Meira að segja útsetningar Pedersøns á þeim lögum sem Hallgrímur orti sálma sína við.

Okkur finnst þetta afar skemmtileg stúdía, alger gæsahúðarupplifun,“ segir Hörður sem tekur fram að fleira skemmtilegt sé á prógramminu.

„Eins og áður sagði eru vel þekkt lög og útsetningar íslenskra tónskálda við sálma Hallgríms líka á dagskránni, svo sem eftir Þorkel Sigurbjörnsson, Jón Nordal og Jón Hlöðver Áskelsson, verk sem hafa fylgt Mótettukórnum um árabil.

Við erum líka að frumflytja fjögur lög við texta Hallgríms, þrjú eftir Halldór Hauksson við sjaldséða sálma og nýtt lag Hreiðars Inga Þorsteinssonar við hinn alþekkta andlátssálm Allt eins og blómstrið eina.“

Hallgrímur Pétursson (1614–1674) hóf nám við Frúarskóla í Kaupmannahöfn átján ára gamall og sat þar á skólabekk þangað til þau Guðríður Símonardóttir felldu hugi saman og sneru heim til Íslands.

Kaupmannahöfn var í örum vexti undir stjórn Kristjáns IV. og menningarlíf í áður óþekktum blóma, ekki síst tónlistin. Hallgrímur kynntist því nýjustu tónlistarstraumum Evrópu, ekki aðeins sem áheyrandi, heldur að öllum líkindum einnig sem söngvari, en skólapiltar í latínuskólanum fengu tilsögn í tónlist og sungu í kór Frúarkirkju, dómkirkju Kaupmannahafnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×