Erlent

Drápu hermenn fyrir mistök

Freyr Bjarnason skrifar
Rannsókn er hafin á því hvers vegna afgönsku hermennirnir féllu.
Rannsókn er hafin á því hvers vegna afgönsku hermennirnir féllu. Nordicphotos/AFP
Fimm afganskir hermenn voru fyrir mistök drepnir í loftárás Nató í héraðinu Logar í austurhluta Afganistan. Átta hermenn til viðbótar særðust.

„Við getum staðfest að að minnsta kosti fimm meðlimir afganska þjóðarhersins voru fyrir mistök drepnir í morgun [gærmorgun] á meðan á hernaðaraðgerð stóð í austurhluta Afganistan,“ sagði Cathleen Show, talsmaður alþjóðlega herliðsins í Afganistan.

„Rannsókn er hafin til að komast að því hvaða aðstæður leiddu til þessa óheppilega atburðar. Við viljum votta fjölskyldum hermannanna sem féllu og þeirra sem særðust samúð okkar.“

Hamid Karzai, forseti Afganistan, hefur gagnrýnt hversu margir almennir borgarar hafa fallið í árásum alþjóðlega herliðsins og hafa samskipti hans við bandarísk stjórnvöld verið afar slæm undanfarin ár. Fyrir vikið hefur Karzai ekki viljað undirrita samkomulag við Bandaríkin um að herlið þeirra og Nató-ríkja verði eftir í Afganistan á næsta ári.

Í lok desember eiga alþjóðleg herlið í Afganistan að yfirgefa landið eftir þrettán ára dvöl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×