Menning

Fórum á æfingu hjá Fóstbræðrum

Graduale Nobili "Það er átak að byrja að syngja eins og fimmtíu manna karlakór eftir að hafa sungið eins og smástelpur í áratugi,“ segir Eygló Höskuldsdóttir, ein úr hópnum.
Graduale Nobili "Það er átak að byrja að syngja eins og fimmtíu manna karlakór eftir að hafa sungið eins og smástelpur í áratugi,“ segir Eygló Höskuldsdóttir, ein úr hópnum. Mynd/Guðrún Matthildur
„Við tökum öll þessi helstu karlakórslög, Hrausta menn, Brennið þið vitar, Ísland, Ísland, eg vil syngja og Fóstbræðralag,“ segir Eygló Höskuldsdóttir Viborg, ein stúlknanna í Graduale Nobili, um tónleika kórsins í Langholtskirkju næsta sunnudag klukkan 20.

Hún segir það rótgróið í þjóðina að fyrrnefnd lög skuli einungis sungin af karlmönnum og viðurkennir líka að það sé krefjandi fyrir dömukór að takast á við þau.



„Það þurfti að „kalla“ aðeins upp í okkur röddina, enda átak að byrja að syngja eins og fimmtíu manna karlakór eftir að hafa sungið eins og smástelpur í áratugi. En við hituðum okkur upp með því að fara á æfingar hjá Fóstbræðrum og Karlakór Reykjavíkur og taka lagið með þeim. Þeir stríddu okkur svolítið fyrst en svo held ég að við höfum fengið grænt ljós hjá þeim þegar við vorum búnar að syngja nokkur lög.“

Hvernig skyldi hugmyndin að tónleikunum hafa orðið til?

„Þegar við vorum í barna-og unglingakórunum hér í Langholtskirkju lærðum við bók með íslenskum lögum utan að. Ef við vorum að bíða eftir strætó á erlendri grundu sungum við Þú álfu vorrar yngsta land og fleiri karlakórslög – sem barnakór. Þetta er því búið að búa með okkur lengi,“ lýsir Eygló og heldur áfram.



„Eitt sinn vantaði okkur aukalag á tónleikum og þá datt Jóni Stefánssyni, stjórnanda okkar, í hug að láta okkur syngja Brennið þið vitar. Síðan er reyndar búin að vera svolítil barátta að fá hann til að æfa með okkur fleiri karlakórslög en það endaði með að lukkast svo nú eru heilir tónleikar með þeim.

Það er líka gaman að tengja þá Mottumars sem við styðjum fullkomlega og höfum stofnað styrktarsíðu til að taka þetta alla leið.“



Almennt miðaverð á tónleikana á sunnudag er 2000 krónur en meðlimir Listafélags Langholtskirkju auk allra félaga í karlakórum nær og fjær, að ógleymdu fátæku námsfólki fá aðgögumiða á 1.500.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×