Viðskipti innlent

Tuttugu prósent nota vef Meniga

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Á Nýsköpunarþingi. Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Meniga, tók við Nýsköpunarverðlaununum.
Á Nýsköpunarþingi. Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Meniga, tók við Nýsköpunarverðlaununum. Mynd/Rannís
Meniga fékk á Nýsköpunarþingi í gærmorgun Nýsköpunarverðlaun Íslands 2014. Meniga er leiðandi í Evrópu á sviði heimilisfjármálahugbúnaðar, með sautján viðskiptavini í fjórtán löndum.

Rúmlega 200 manns sóttu þingið á Grand hótel Reykjavík, en á því var fjallað sérstaklega um vaxtarferla fyrirtækja.

Meniga rekur heimilisfjármálavefinn meniga.is sem hleypt var af stokkunum í ársbyrjun 2010. Núna nota vefinn um 20 prósent íslenskra heimila, að því er fram kemur í tilkynningu Rannís.

„Vefurinn er rekinn í samstarfi við alla stóru bankana þrjá,“ segir þar jafnframt og tekið fram að Meniga vinni að ýmsum spennandi nýjungum sem verði kynntar næstu misseri. „Þær miða allar að því að hjálpa fólki að spara peninga með markvissum hætti.“

Nýsköpunarverðlaunin eru veitt af Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×