Skoðun

Hagur barns er hagur samfélagsins

Ragnhildur Helgadóttir skrifar
Nemendur í Grunnskóla Grindavíkur sem rufu þögnina og sögðu frá einelti kennara þurfa nú að sæta ofsóknum frá bæjarbúum. Hópur Grindvíkinga hefur birt undirskriftalista þar sem lýst er yfir stuðningi við kennarann sem beitti ofbeldinu. Þetta er að gerast þrátt fyrir að staðfest hafi verið að um einelti hafi verið að ræða.

Það er sorglegra en tárum taki að verða vitni að því hvað fólk er fljótt að bregðast til varnar fyrir ofbeldismenn og gera lítið úr vitnisburði þolenda. Ábyrgð og skömm þeirra sem taka upp svona undirskriftasöfnun til stuðnings geranda er mikil og ótrúlegt að fólk skuli með þessu niðurlægja og auka á þjáningar þeirra sem brotið hefur verið á.

Viðbrögð skólastjórnenda eru á sama veg og svo virðist sem stjórnendur vilji ekki trúa þessu upp á kennarann, finnst einfaldara að finna að börnunum sem urðu fyrir ofbeldinu og foreldrum þeirra sem reyna að berjast fyrir réttlæti þeim til handa. Hlutverkin hafa skyndilega snúist við og ofbeldismanneskjan komin í stöðu fórnarlambs og börnin orðin að vandamáli. Á sama tíma er enginn stuðningur við börnin sem eru hin raunveruleg fórnarlömb, hvorki frá skóla né öðrum hlutaðeigandi aðilum.

Börnin stunda nám á skrifstofum bæjarins en kennarinn gegnir sínu starfi áfram í skólanum.

Það er einlæg ósk mín að bæjar- og skólastjórnendur í Grindavík beri gæfu til að bregðast við og taki á mislukkuðum ferlum í eineltismálum sem valda einstaklingum sársauka og niðurlægingu. Hafa skal í huga að hagur barns er hagur samfélags.




Skoðun

Sjá meira


×