Innlent

Um hundrað börn rannsökuð vegna ónæmrar bakteríu

Bjarki Ármannsson skrifar
Ónæmt afbrigði e. coli-bakteríunnar hefur fundist í um það bil sautján börnum.
Ónæmt afbrigði e. coli-bakteríunnar hefur fundist í um það bil sautján börnum. Vísir/Vilhelm
Ónæmt afbrigði e. coli-bakteríunnar greindist á vökudeild Landspítalans um mánaðamót febrúar og mars. Aðgerðir fóru strax í gang til að hindra frekari dreyfingu á deildinni.

„Um er að ræða e. coli sem hefur náð í ónæmisgen,“ segir Ólafur Guðlaugsson, smitsjúkdómalæknir og yfirlæknir sýkingavarnardeildar Landspítalans. „Hún veldur ekki sýkingum frekar en næmar e. coli-bakteríur en það þarf að nota önnur sýklalyf en væru venjulega notuð.“

Að sögn Ólafs hefur gengið mjög vel að ná utan um uppákomuna og ekkert nýtt barn greinst með bakteríuna síðan málið kom upp.

„Við höfum hins vegar fundið bakteríuna í börnum sem lágu inni áður en þetta uppgötvaðist,“ segir Ólafur.

Foreldrar þeirra barna sem hafa verið á deildinni frá því að bakterían greindist hafa verið beðin um að senda saursýni til spítalans í leit að frekari tilfellum. Að sögn Ólafs er um rúmlega hundrað börn að ræða en bakterían hefur fundist í um sautján börnum.

„Þetta er til þess að við skiljum uppákomuna betur og til að læknar barnanna viti af þessu ónæmi,“ segir Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×