Menning

Draumóramenn sem láta draumana rætast

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
"Ferðalagið í gegnum hvalinn varpar ljósi á sögu og menningu þessara landa og karakteranna sem þar búa,“segir Tinna Ottesen, leikmyndahönnuður sýningarinnar.
"Ferðalagið í gegnum hvalinn varpar ljósi á sögu og menningu þessara landa og karakteranna sem þar búa,“segir Tinna Ottesen, leikmyndahönnuður sýningarinnar.
Fantastar er samvinnuverkefni listamanna frá Íslandi, Grænlandi, Færeyjum og Danmörku og verður sýnt í Brimhúsinu við Geirsgötu á Listahátíð í Reykjavík.

Við byrjuðum að vinna að þessu verkefni árið 2010,“ segir Tinna Ottesen, leikmyndahönnuður Fantastar. „Árið 2012 vorum við svo með smiðju þar sem komu listamenn frá Færeyjum og Grænlandi þar sem við unnum konseptið saman og ákváðum nafnið.“



Hvað þýðir orðið Fantastar? „Fantast er orð sem notað er í dönsku og ensku og það íslenska orð sem kemst næst merkingunni er sennilega athafnaskáld,“ segir Tinna. „Fantastinn er draumóramaður með rosalega athafnagleði sem framkvæmir ótrúlegustu hluti sem venjulegu fólki detta aldrei í hug. Það eru svona týpur í öllum litlum samfélögum, menn sem hrinda einhverju í framkvæmd bara til að geta sagt söguna af því.“



Leikmyndin sem Tinna hannaði er engin smásmíði því hún er heill hvalur sem leggur undir sig Brimhúsið við Geirsgötu. „Ég held þetta séu um 1.500 fermetrar,“ segir Tinna. „Þessi hvalur er líka sérstakur að því leyti að hann er 25 herbergi og hvert herbergi táknar eitthvert líffæri eða hefur skírskotun í sameiginlega sögu þessara þriggja þjóða. Áhorfendur ganga í gegnum þessi 25 rými sem er hvalurinn, byrja í munninum og enda með að renna sér út um sporðinn. Í hverju rými er einhver viðburður, gjörningur, hljóðverk eða listaverk, og saman myndar þetta einhvers konar sögu.“



Ævintýrinu er þó ekki lokið eftir gönguna í gegnum hvalinn því fljótandi hljóðfæri í formi risakræklings liggur við bryggju þegar út er komið. „Úr kræklingnum ómar tónlist sem tekur á móti gestum þegar þeir koma út um sporðinn,“ segir Tinna. „Þannig að fólk getur staldrað við og melt það sem það gekk í gegnum í hvalnum á meðan það nýtur þess að horfa og hlusta á kræklinginn.“



Það er Margrét Vilhjálmsdóttir leikkona sem hefur forystu fyrir hópi listamanna frá Grænlandi, Færeyjum, Íslandi og Danmörku sem vinna saman að þessum listviðburði sem byggist á hugmyndum og ranghugmyndum þjóðanna og misskilinni sjálfsmynd þeirra. „Ferðalagið í gegnum hvalinn varpar ljósi á sögu og menningu þessara landa og karakteranna sem þar búa, sjálfa fantastana,“ segir Tinna.



Sýningin er hluti af Listahátíð í Reykjavík og verður frumsýningin þann 22. maí. Aðeins verða sjö sýningar hérlendis en í haust mun sýningin verða sett upp í Grænlandi og Færeyjum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×