Innlent

Kalla yrði þing saman í dag til að hindra flugvirkjaverkfall

Freyr Bjarnason og Snærós Sindradóttir skrifar
Samninganefnd flugvirkja, með formanninn Maríus Sigurjónsson hægra megin, við samningaborðið hjá Ríkissáttasemjara í gær.
Samninganefnd flugvirkja, með formanninn Maríus Sigurjónsson hægra megin, við samningaborðið hjá Ríkissáttasemjara í gær. Fréttablaðið/GVA
„Það er að minnsta kosti enginn gangur,“ sagði Maríus Sigurjónsson, varaformaður Flugvirkjafélags Íslands, á níunda tímanum í gærkvöldi en þá sátu samninganefnd flugvirkja og fulltrúar Icelandair enn á fundi hjá Ríkissáttasemjara.

Bein afskipti stjórnvalda gætu komið í veg fyrir ótímabundið verkfall flugvirkja sem er fyrirhugað á fimmtudaginn. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra getur kallað saman þing með sólarhringsfyrirvara í því skyni að setja lög á verkfallið. Fari svo að samningar takist ekki hjá Ríkissáttasemjara yrði hún því að kalla þingið saman í dag til að koma í veg fyrir að flugvirkjar geti lagt niður störf á fimmtudag.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra.
Förum bara í gegn um daginn

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði að ekki væri búið að ákveða að fella niður flug fari svo að verkfallið hefjist á fimmtudag. „Við erum í þessum gír að fara bara í gegnum daginn,“ sagði hann.

Sólarhringsverkfall flugvirkja hófst klukkan sex í gærmorgun. Verkfallið hafði áhrif á um tólf þúsund farþega Icelandair en alls var sextíu og fimm flugferðum aflýst með tilheyrandi óþægindum.

Ferðaþjónustan uggandi

Aðalfundur Ferðamálasamtaka Íslands var haldinn í Reykjavík í gær. Í ályktun samtakanna kom fram að þau harmi þá stöðu sem ferðaþjónustan hafi ítrekað verið sett í vegna verkfallsaðgerða og stöðvunar á flugi hjá stærsta flugfélagi landsins. Áhrif þessara aðgerða komi fram um allt land og hafi skaðað atvinnugreinina. Skoraði fundurinn á viðsemjendur að ná sáttum svo eðlilegt ástand skapist sem fyrst hjá þessari mikilvægustu atvinnugrein landsins.

„Afþreyingaraðilar úti um allt land finna verulega fyrir þessu,“ segir Ásbjörn Björgvinsson, formaður samtakanna, aðspurður.

Ásbjörn Björgvinsson.
Hrís hugur við ótímabundnu verkfalli

„Okkur hrýs hugur við því ef það verður ótímabundið verkfall sem gæti tekið einhverja daga eða vikur að leysa. Þá hleypur skaðinn á milljörðum. Þessi atvinnugrein er að velta gríðarlegum upphæðum. Menn verða að taka tillit til þess hver hliðaráhrifin af svona aðgerðum verða um allt land,“ segir Ásbjörn og vill aðkomu stjórnvalda að deilunni.

„Það er lágmarkskrafa að stjórnvöld komi að þessu og leysi ef þetta verður komið í hnút. Þetta eru almannahagsmunir og á þeim grundvelli verður að grípa inn í þegar svona er. Auðvitað vonumst við til að menn beri gæfu til að ná lendingu í þessum málum en þessi litli hópur getur sett þetta algerlega á hliðina hjá okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×