Lífið

Nokkrum númerum of stór og stokkbólgin

Sigga Dögg kynfræðingur skrifar
Fyrir ári síðan lá ég uppi á fæðingardeild með lítinn nýfæddan dreng við hlið mér. Mér leið eins og hann væri Móses sem klauf Rauða hafið (það eina sem hægt er að kalla nýfæðingarlega píku). Ég man ekki hversu mörg spor þurfti að sauma því ég var svo pollslök á meðan ljósmóðirin saumaði, ég spjallaði bara við mömmu í símann. Svo langaði mig að raula lagið Ein ég sit og sauma. Það eina sem skipti máli var litli nýfæddi drengurinn og að þetta væri loksins búið. Ég var eiginlega bara skýjum ofar yfir því að fæðing væri afstaðin og ég mætti bara halla mér aftur og slaka á.

Ég játa það að ég óttaðist næstu daga. Mig langaði ekki til að kíkja á hana, eins og ljósmóðirin stakk upp á. Mér leið í henni eins og einhver í skó með stáltá hefði sparkað í hana og hún væri nú nokkrum númerum of stór og stokkbólgin. Ég sá hana fyrir mér sem víraða saman með silfurlituðum stálþræði og þarna væri allt lokað og læst. Þegar ljósmóðirin kom heim og spurði hvort ég væri búin að „gera nr. 2“ þá horfði ég á hana með forundran. Átti ég í alvörunni að fara að rembast?! Saumarnir gætu sprungið og allt galopnast og legið sigið niður í salernisskálina. Ímyndaði ég mér. Allt kom fyrir ekki og þetta hafðist allt með tíð og tíma en djöfull var þetta óþægilegt. Svo ég noti nú ekki sterkara orð.

Nú er komið sumar og ég sé fallegu ófrísku konurnar eins og þrýstnar býflugur sveima um borgina með kúluna langt út í loftið. Ég dáist að þeim og langar að segja þeim hversu fallegar þær séu, en á sama tíma þá langar mig pínu að kreista þær og andvarpa. Fæðing í gegnum leggöng er magnað ferli, sársaukafullt og skrýtið en umfram allt einstakt. Ekki gott einstakt en heldur ekki beint vont einstakt.

Eftir keisarafæðingu eldra barnsins var ég svo glöð að píkan hefði sloppið við átökin og komist óteygð út úr öllu þessu havaríi. Svo varð ég leið yfir að hún hefði misst af tækifærinu til að skína. Hún hefði getað sýnt hvað í sér bjó en allt kom fyrir ekki.

Hér ári síðar eftir leggangafæðingu er ekki að sjá á henni átökin sem hún hefur háð og hún hefur að mestu „gleymt“ sársaukanum en hún er um leið líka pínu stolt. Píkan mín, sem ég áður taldi nokkuð pena puntdúkku, þurfti á þessari þrekraun að halda til þess að uppfylla sínar eigin hugmyndir um töffarann sem hún raunverulega er.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.