Íslenski boltinn

Höfum reynt að sýna þolinmæði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kristinn Traustason, formaður íbúasamtakanna, við aðstöðu Fram í Úlfarsárdal.
Kristinn Traustason, formaður íbúasamtakanna, við aðstöðu Fram í Úlfarsárdal. Fréttablaðið/Arnþór
Forráðamenn íþróttafélagsins Fram og íbúasamtaka Grafarholts og Úlfarsárdals eru þreytt á hægagangi borgaryfirvalda í uppbyggingu á svæðinu, meðal annars því sem snýr að þeirri íþróttaaðstöðu sem átti að komu upp í nafni Fram. Íbúar séu orðnir langþreyttir á loforðum og vilji framkvæmdir.

„Samkvæmt upphaflega samningnum áttum við að vera alfarið komnir upp í Úlfarsárdal á þessu ári,“ segir Ólafur Arnarson, formaður Fram, í samtali við Fréttablaðið. En svo hafi allt breyst í hruninu.

„Þá var gert samkomulag við borgina um að koma upp gervigrasvelli og þeirri aðstöðu sem er þar upp frá núna,“ segir Ólafur en eina aðstaðan við gervigrasvöllinn eru tveir búningsklefar. Að öðru leyti fer starfsemi félagsins fram á íþróttasvæði félagsins við Safamýri og ekki útlit fyrir að það breytist mikið á næstu árum.

Ólafur segir að það standi þó alls ekki til að hætta við allt saman.

„Alls ekki. Við erum komnir allt of langt af stað enda 75-80 prósent okkar iðkenda búsett í Úlfarsárdal og Grafarholti. Maður vill helst sjá að framkvæmdum verði flýtt, bæði fyrir Fram og íbúana,“ segir Ólafur en þar til að Fram flytur allt sitt starf úr Safamýri eru iðkendur fluttir á milli með rútum.

„Það er líka dýrt,“ áréttar Ólafur. „Við fáum styrk frá borginni til að halda því úti en hann nær ekki yfir allan kostnaðinn.“

Sjö þúsund manna byggð

Kristinn Steinn Traustason er formaður íbúasamtakanna í Grafarholti og Úlfarsárdal og tekur undir þau orð Ólafs að best væri að flýta framkvæmdum. Það sé hins vegar ekki útlit fyrir það.

„Íþróttafélagið Fram á að þjónusta alla íbúa Grafarholtsins og Úlfarsársdalsins en þar búa tæplega sjö þúsund manns. Þetta er fjölmennari byggð en í Vestmannaeyjum og Akranesi. Ég tel að það yrði eitthvað sagt við því ef börnin á Akranesi þyrftu að sækja fótboltaæfingar í Borgarnesi,“ segir Kristinn.

Á síðasta ári ákváðu borgaryfirvöld að leggja til hliðar allar teikningar og framkvæmdaáætlanir fyrir hverfið til hliðar og efna til nýrrar hönnunarsamkeppni fyrir byggingu skóla, menningarmiðstöðvar, bókasafns, sundlaugar og íþróttasvæðis. Kristinn er gagnrýninn á þessa ákvörðun.

„Í raun var verið að slá vopnin úr höndum fólksins rétt fyrir kosningar með því að efna til hönnunarsamkeppni. Þar með var hægt að þagga málið niður fram yfir kosningar enda voru málefni íbúa í Grafarholti og Úlfarsárdal ekkert rædd í aðdraganda þeirra,“ segir Kristinn sem bindur engar sérstakar vonir við niðurstöðu hönnunarsamkeppninnar.

„Ekki aðrar en þær en að við viljum bara sjá að eitthvað gerist. Við erum búin að tala nóg.“

Viljum hraða ferlinu

Ólafur segist ekki ánægður með hægagang borgaryfirvalda.

„Við höfum reynt að sýna þolinmæði og það hafa íbúarnir gert líka. Best væri ef öllu ferlinu væri hraðað því ég veit ekki hvað borgaryfirvöld ætla sér svo að taka sér langan tíma í uppbygginguna þegar niðurstaða í hönnunarsamkeppninni liggur fyrir,“ segir hann en ekki er von á að sigurtillagan verði valin fyrr en í október.

Kristinn segir að íbúasamtökin hafi fengið þau skilaboð að borgaryfirvöld hafi gefið sér fimm ár til að byggja upp aðstöðu á svæðinu og hafi tryggt verkefninu fjármagn. En íbúar séu orðnir langþreyttir á loforðum.

„Svörin sem við höfum fengið er að þetta sé allt að koma en svo gerist lítið sem ekkert. Nú spyr maður sig hvað gerist næst – hvort hafist verði handa eða hvort teygist enn frekar á öllu saman í nokkur ár í viðbót,“ sagði Kristinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×