Íslenski boltinn

Þóra vonar að Tinna finni sér annað lið: „Kæmi mér á ó­vart ef það yrði ekki slegist um hana“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Þóra Helgadóttir býst við miklu af Tinnu Brá.
Þóra Helgadóttir býst við miklu af Tinnu Brá.

Markvörðurinn Tinna Brá Magnúsdóttir var einn af fáum ljósum punktum í liði Fylkis, sem féll úr Bestu deild kvenna í sumar. Landsleikjahæsti markmaður Íslands vonar að hún finni sér annað lið fyrir næsta tímabil.

„Nú er þetta tvítugur markvörður sko, ekki sautján eða átján ára, er hún að hugsa sér að spila í Lengjudeildinni á næsta ári?“ spurði þáttastjórnandinn Helena Ólafsdóttir.

„Ég vona ekki,“ svaraði Þóra Helgadóttir, sem veit eitt og annað um markvörslu.

Tinna í leik gegn Tindastóli í sumar. vísir / HAG

„Þessi stelpa á að stefna á landsliðið og á að fara í efri hlutann í efstu deild, finnst mér,“ bætti Þóra við en hún er landsleikjahæsti markmaður í sögu kvennalandsliðsins.

Hún spilaði með Breiðablik og KR hér á landi áður en haldið var út fyrir landsteinana, ferlinum lauk svo í Árbænum hjá Fylki. Hún sparar ekki kollega sínum hrósið.

„Hefur alla burði, hún er frábær í fótunum, hún er hávaxin og góður íþróttamaður. Það kæmi mér á óvart ef það yrði ekki slegist um hana.“

Klippa: Umræða um Tinnu Brá markmann Fylkis

Umræðuna um Tinnu Brá úr Bestu mörkunum má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×