Viðskipti innlent

Raforka með öllu uppseld í Eyjafirði

Sveinn Arnarsson skrifar
Raforkuflutningar til Eyjafjarðar eru afar ótryggir og fyrirtæki á svæðinu líða fyrir það.
Raforkuflutningar til Eyjafjarðar eru afar ótryggir og fyrirtæki á svæðinu líða fyrir það.
Raforkuflutningar til Eyjafjarðar eru afar ótryggir og þurfa mörg stór fyrirtæki að treysta á skerðanlegan orkuflutning og hefur það áhrif á atvinnustarfsemi í Eyjafirði. Fyrirtæki á svæðinu hafa þurft að keyra á varaaflstöðum knúnum steinolíu þegar raforka hefur verið skert til þeirra.

Becromal á Akureyri tekur rúmlega 80 prósent af allri raforku sem kemur inn á Eyjafjarðarsvæðið. Nú er svo komið að nýr iðnaður getur ekki sest að á Eyjafjarðarsvæðinu því flutningslínur inn á svæðið eru fulllestaðar.

Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, segir ástandið alls ekki gott.

„Það er vissulega rétt að þessi mál eru ekki í góðum farvegi. Blöndulína þrjú hefur verið á teikniborðinu lengi og höfum við beðið í um fimm ár. Landsnet væri búið að fjárfesta í flutningi inn á Eyjafjarðarsvæðið fyrir um 12-15 milljarða ef sveitarfélög væru búin að klára skipulagið hjá sér. Þau hafa dregið lappirnar.“

Unnsteinn Jónsson, verksmiðjustjóri Vífilfells á Akureyri, segir raforkuflutninginn setja starfseminni hjá fyrirtækinu nokkrar skorður. „Við höfum verið að keyra á olíu í vor sem og síðasta vor. Við kaupum trygga orku en ótryggan flutning. Flutningurinn á raforkunni er þannig að okkur stendur ekki til boða að kaupa trygga raforkuflutninga frá Landsnetiþví byggðalínan býður ekki upp á það. Þetta setur okkur í afar erfiða stöðu,“ segir Unnsteinn.

Kristín Halldórsdóttir, mjólkurbússtjóri MS á Akureyri, segir fyrirtækið einnig í erfiðri stöðu. „Við höfum keyrt steinolíukatla til að búa til gufu til þess að framleiða vörur hjá okkur, sem er fjórum sinnum dýrara en rafmagn.“


Tengdar fréttir

Ekki nægt framboð raforku í Eyjafirði

Ný fyrirtæki geta ekki sest að á Eyjafjarðarsvæðinu því raforkan er ekki til. Flutningurinn inn á svæðið er vandamálið. „Sveitarfélögin draga lappirnar,“ segir forstjóri Landsnets.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×