Fótbolti

Argentína hefur beðið í 24 löng ár eftir hefndinni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Maradona komst ekkert áfram í úrslitaleiknum 1990. Hvað gerir Messi gegn Þjóðverjum á morgun?
Maradona komst ekkert áfram í úrslitaleiknum 1990. Hvað gerir Messi gegn Þjóðverjum á morgun? fréttablaðið/getty
Úrslitaleikur HM árið 1990 á milli Argentínu og Vestur-Þýskalands var endurtekning á úrslitaleiknum fjórum árum áður. Þá vann Argentína 3-2 en Þjóðverjar náðu fram hefndum gegn Maradona og félögum með 1-0 sigri á Ólympíuleikvanginum í Róm.

Eina mark leiksins skoraði Andreas Brehme úr vítaspyrnu fimm mínútum fyrir leikslok. Leikurinn var ekki sá skemmtilegasti í keppninni en hann var sögulegur að mörgu leyti.

Í fyrsta skipti í úrslitaleik HM voru leikmenn reknir af velli. Argentínumaðurinn Pedro Monzon fékk þann heiður að verða sá fyrsti sem fékk rautt í úrslitum HM er hann negldi Jürgen Klinsmann, núverandi landsliðsþjálfara Bandaríkjanna, niður. Landi hans, Gustavo Dezotti, fór sömu leið er hann fékk sitt annað gula spjald fyrir skrautlega tæklingu á Jürgen Kohler.

Argentínumenn lögðust í skotgrafirnar í þessum leik enda með fjóra byrjunarliðsmenn í banni og aðra meidda. Maradona var í strangri gæslu allan leikinn og komst ekkert áfram. Argentínumenn ætluðu sér í vítakeppni og áttu aðeins eitt skot að marki allan leikinn á meðan Þjóðverjar lúðruðu sextán sinnum á rammann.

Það eru talsverð líkindi á milli liðanna í dag og fyrir 24 árum síðan. Argentína er með einn yfirburðamann sem bjargar þeim er á þarf að halda og liðið hefur verið gagnrýnt fyrir leiðinlegan leik rétt eins og árið 1990. Í marki Argentínu er líka óþekktur vítabani sem hefur stigið upp líkt og Sergio Goycochea gerði á Ítalíu fyrir 24 árum.

Þýskaland er aftur á móti sterk liðsheild þar sem enginn einn leikmaður skarar fram úr. Liðið er vél og við þessa þýsku vél réði Argentína ekki fyrir 24 árum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×