Erlent

Erfitt björgunarstarf framundan í Kína

Þúsundir heimila urðu jarðskjálftanum að bráð.
Þúsundir heimila urðu jarðskjálftanum að bráð. vísir/AP
Rúmlega tíu þúsund manns vinna nú að því að hreinsa vegi og ná fólki út úr húsarústum í Suðaustur-Kína þar sem harður jarðskjálfti varð 410 manns að bana um helgina. Jarðskjálftinn mældist 6,1 stig og olli mikilli eyðileggingu.

Á þessum slóðum er talsvert af bröttum brekkum og þröngum vegum sem gerir aðgengi að hamfarasvæðinu erfitt. Mörg hundruð sjálfboðaliðar komu úr ólíkum áttum til þess að taka þátt í björgunarstarfinu. Sumir voru vel búnir, aðrir með engin verkfæri önnur en hendurnar.

„Ég ólst upp á þessum slóðum og þetta er mitt fólk,“ sagði Zeng, háskólanemi og sjálfboðaliði, í samtali við AP. „Ég mun hjálpa hvernig sem ég get.“

Stór hluti heimilanna í Júnnan-héraði, þar sem skjálftinn reið yfir, voru einföld hús úr leir og múrsteinum og hrundu þau auðveldlega. Júnnan hefur oft orðið illa úti í jarðskjálftum sem þessum, en sögulegur skjálfti árið 1970 grandaði um fimmtán þúsund manns hið minnsta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×