Menning

Sama dagskrá á sama stað 40 árum síðar

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
 Kammersveit Reykjavíkur og Herdís Anna Jónsdóttir söngkona kát á æfingu fyrir afmælistónleikana.
Kammersveit Reykjavíkur og Herdís Anna Jónsdóttir söngkona kát á æfingu fyrir afmælistónleikana. Fréttablaðið/GVA
„Fyrstu tónleikarnir voru haldnir á Kjarvalstöðum fyrir fullu húsi á Þjóðhátíð í Reykjavík 1974.

Nú endurtökum við þessa tónleika fjörutíu árum síðar á sama stað,“ segir Rut Ingólfsdóttir fiðluleikari um hátíðartónleika Kammersveitar Reykjavíkur á morgun, 17. ágúst, sem hefjast klukkan 17.15. Þeir nefnast Endurskin frá 1974.

Þar syngur Herdís Anna Jónsdóttir sópransöngkona einsöng í stað Elísabetar Erlingsdóttur sem var með á upphafstónleikunum.

Rut Ingólfsdóttir var formaður Kammersveitarinnar í 36 ár og er sú eina af upprunalega hópnum sem spilar á morgun.

„Ég tók fjögurra ára hlé frá sveitinni frá 2010 og þar til í vor. Var beðin að koma aftur að hjálpa til og gerði það mjög glöð,“ segir hún og tekur vel í að lýsa tilurð sveitarinnar.

„Við vorum fimm sem höfðum spilað saman í Barrokkkvintett Helgu Ingólfsdóttir og tveir úr þeim hópi voru líka í Blásarakvintett Tónlistarskólans í Reykjavík.

Við ákváðum að sameina þessa hópa til að breikka efnisvalið og bættum við kontrabassa, víólu og trompet. Stofnfélagarnir voru tólf en fólk var misjafnlega lengi í hópnum.

Það unnu allir endurgjaldslaust, okkar hugsjón var að kynna alls kyns tónlist og líka að gefa okkur sjálfum tækifæri til að spila það sem okkur langaði.

Engir styrkir voru fáanlegir framan af nema smávegis frá Reykjavíkurborg, þeir dugðu fyrir prentun efnisskráa og fleiru sem þurfti að kaupa að.“

Rut segir Kjarvalsstaði, Bústaðakirkju og Menntaskólann við Hamrahlíð hafa verið helstu tónleikastaðina framan af.

„Þetta voru nýjar byggingar hér í Reykjavík og allir voru svo velviljaðir að við fengum að spila án endurgjalds.“

En voru tónleikar Kammersveitarinnar vel sóttir strax í upphafi? „Já, fólki fannst svo gaman og framlag okkar svo góð viðbót við tónlistarlíf sem var ekki mjög fjölskrúðugt.

Þótt við værum bara með ferna tónleika á vetri gáfum við út efnisskrár fyrir fram og vorum með áskriftarmiða fyrstu tíu árin eða svo. Það mæltist vel fyrir á þeim tíma.“

Í tilefni afmælisins kemur út afmælisrit, tekið saman af Reyni Axelssyni stærðfræðingi og nefnist Blaðað í gömlum efnisskrám.

„Það er fróðleg og skemmtileg lesning með myndum,“ segir Rut og getur líka nýs geisladisks sem kemur út af sama tilefni með uppáhaldsverkum sveitarinnar eftir Jóhannes Brahms.

Tónleikar Kammersveitarinnar skipta hundruðum á síðustu 40 árum, að sögn Rutar sem segir starfið hafa byggst mest á sjálfboðavinnu.



Efnisskráin þá og nú

Arcangelo Corelli Concerto grosso op. 6 nr. 1 í D-dúr

Johann Sebastian Bach „Weichet nur, betrübte Schatten“, Brúðkaupskantata BWV 202

Páll Pampichler Pálsson Kristallar (1970)

Bohuslav Martinu Nonetto (1959)






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.