Innlent

Sena bauð bæjarfulltrúum á Timberlake

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Sigurjón Jónsson varabæjarfulltrúi fékk ekki boðsmiða á Timberlake og fór þá að hugsa um hvort eðlilegt væri að bæjarfulltrúar þæðu frímiða frá Senu.
Sigurjón Jónsson varabæjarfulltrúi fékk ekki boðsmiða á Timberlake og fór þá að hugsa um hvort eðlilegt væri að bæjarfulltrúar þæðu frímiða frá Senu. Fréttablaðið/Valli
Bæjarfulltrúum Kópavogsbæjar var boðið á tónleika Justins Timberlakes ásamt mökum en Sena sendi frímiða á bæjarskrifstofurnar.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri sendi sjálfur tölvupóst á bæjarfulltrúana og sagði frá boðsmiðunum. Fréttablaðið óskaði í gær eftir upplýsingum um það hverjir fengu frímiðana og hversu marga frímiða hver og einn fékk til ráðastöfunar. Upplýsingafulltrúi bæjarins segir bæjarstjórann í fríi og að þessum spurningum verði því ekki svarað fyrr en eftir helgi.

Sigurjón Jónsson, varabæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, lagði fram fyrirspurn um sama efni á bæjarráðsfundi á miðvikudag. Hann vill vita hvaða fulltrúar og stjórnendur hjá bænum fengu ókeypis miða.

„Sjálfur hafði ég mikinn áhuga á því að upplifa húsið og mæta á tónleikana þar sem ég sit í stjórn markaðsstofu Kópavogs en mér var tjáð að ekki væru miðar í boði fyrir varabæjarfulltrúa. Í framhaldi af því fór ég að hugsa út það í hvort eðlilegt væri að Sena byði bæjarfulltrúum og stjórnendum bæjarins á tónleikana þar sem þeir væru viðskiptamenn bæjarins,“ segir Sigurjón og vitnar í gildandi siðareglur bæjarins.

Gríðar góð stemning var á tónleikum með Justin Timberlake í Kópavogi.Fréttablaðið/Andri
„Óheimilt er að þiggja gjafir, fríðindi eða önnur hlunnindi frá viðskiptamönnum eða þeim sem leita eftir þjónustu Kópavogsbæjar ef líta má á það sem endurgreiðslu fyrir greiða eða sérstaka þjónustu,“ les Sigurjón upp úr siðareglunum, sem hann kveður ná jafnt til bæjarfulltrúa sem stjórnenda bæjarins.

„Svona hlutir þurfa að vera á hreinu ef Kórinn á að vera notaður til framtíðar í þessum tilgangi,“ bætir Sigurjón við. „Það hefði verið eðlilegra að Kópavogsbær hefði keypt miða ef vilji var til að bjóða bæjarfulltrúum á Timberlake því hitt setur okkur í erfiða stöðu þegar Sena kemur að borðinu með næstu tónleika.“

Sigurjón vill einnig upplýsingar um tekjur og kostnað Kópavogsbæjar af tónleikahaldinu. „Það sem er kannski alvarlegast í þessu er ef Kórinn er leigður á einhverju undirverði og menn eru á sama tíma að þiggja gjafir.“

Björn Sigurðsson hjá Senu segir fyrirtækið ekki veita upplýsingar um boðsmiða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×