Lífið

Á lag á plötu með ofurstjörnu

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Jóhann Steinn Gunnlaugsson raftónlistarmaður á endurhljóðblöndun á plötu með þekktum nöfnum í raftónlistarheiminum.
Jóhann Steinn Gunnlaugsson raftónlistarmaður á endurhljóðblöndun á plötu með þekktum nöfnum í raftónlistarheiminum. vísir/gva
„Þetta er ótrúlega mikill heiður fyrir mig, ég bjóst ekki við þessu og þetta sýnir að það getur allt gerst,“ segir raftónlistarmaðurinn Jóhann Steinn Gunnlaugsson, en hann á lag á væntanlegri plötu hollenska raftónlistarmannsins Armins van Buuren sem kemur út síðar í mánuðinum.

Lagið er þó í raun ekki samið af Jóhanni Steini, heldur endurhljóðblandaði hann lag Armins. „Þetta er maður sem hefur hlotið Grammy-tilnefningu og því alveg ótrúlegt að fá að remixa lagið hans. Lögin á plötunni eru bæði eftir hann sjálfan, sem aðrir hafa svo remixað og einnig eftir aðra listamenn,“ útskýrir Jóhann Steinn.

Fleiri þekkt nöfn innan raftónlistargeirans eiga lög og endurhljóðblandanir á plötunni eins og Paul Oakenfold sem samdi hluta tónlistarinnar í kvikmyndinni Swordfish og þýski raftónlistardúettinn Cosmic Gate. „Þetta eru risanöfn innan raftónlistarheimsins.“

Þess má til gamans geta að Armin van Buuren er með tæplega átta og hálf milljón læka á Facebook-síðu sinni og var tilnefndur til Grammy-verðlaunanna í ár fyrir danslag ársins, This Is What It Feels Like.

Jóhann Steinn er á leið til Frakklands og Kanada á næstunni að spila, ásamt því að vinna í nýju efni. „Það er aldrei að vita nema að maður komi fram með Armin ef allt gengur vel,“ bætir Jóhann Steinn við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×