Lífið

Ekki bara sport fyrir vandræðaunglinga

Segja ekki hvaða verkfræðistofu sem er geta hannað og byggt alvöru hjólabrettagarð.
Segja ekki hvaða verkfræðistofu sem er geta hannað og byggt alvöru hjólabrettagarð. Vísir/Pjetur
„Brettið tók mig út úr mínu hverfi þangað sem eitthvað áhugavert var að gerast, ég hefði til dæmis aldrei farið út í tónlistina ef ég hefði ekki kynnst fólkinu í kringum hjólabrettamenninguna. Ég fann mig aldrei í hópíþróttum. Svo prófaði ég að fara á hjólabretti og fann að ég fékk þessa útrás sem ég þurfti,“ segir Ársæll Þór Ingvason, betur þekktur sem tónlistarmaðurinn Intro Beats, sem berst fyrir því að borgin smíði alvöru „park“ í fyrirhuguðu frístundasvæði í Gufunesbæ undir hjólabrettaiðkun, BMX, hlaupahjól og línuskauta.

Alexander Kárason, stofnandi Jaðaríþróttafélagsins, hefur unnið að því með Ársæli að fá erlenda fagmenn til þess að teikna upp hjólabrettaaðstöðu á reit í Gufunesi.

„Það er svo mikilvægt að svona fari ekki í gegnum hvaða verkfræðistofu sem er. Skeitarar þurfa að hafa eitthvað um málið að segja því þeir vita hvernig aðstaðan á að vera svo hún sé sem best. Annað er peningaeyðsla,“ bætir Alexander við, betur þekktur sem Lexi.

„Borgin nálgaðist okkur í fyrstu til þess að vinna þessa grunnvinnu sem við höfum nú skilað og fengið teikningar af fullmótuðu svæði, svona teikningar kosta milljónir. Nú viljum við bara sjá þetta verða að veruleika,“ segir Intro Beats.

Lexi segir Íslendinga vera um 10 til 15 árum á eftir nágrannalöndunum þegar kemur að hjólabrettamenningu.

„Þú sérð það að þetta hefur verið gert alls staðar, til dæmis í Nörrebro í Kaupmannahöfn og í Grænlandi bjuggu þeir nýlega til aðstöðu sem er algjörlega til fyrirmyndar og kemur notendum og iðkendum á næsta stig. Eins og þróun á að vera. Í dag er það þannig að Íslendingar fara út að keppa því það eru engin svæði til að æfa sig hér heima. Við eigum helling af fólki með mikla hæfileika en við erum að hamla því með því að bjóða upp á takmörkuð svæði og skyndilausnir.“

Þeir félagarnir segja báðir að hjólabrettaiðkun sé uppbyggileg.

„Þetta er ekki bara eitthvað sport fyrir vandræðaunglinga. Þetta er félagslegt, þetta er góð hreyfing og gott fyrir þá sem hafa áhuga á. En við viljum þá líka hafa þetta almennilegt þannig að foreldrar geti vitað af börnunum sínum öruggum á vel lýstu og vel hönnuðu svæði,“ segir Intro Beats og Lexi tekur í sama streng.

„Það þarf að fara að veita jaðaríþróttum almennt miklu meiri athygli. Við erum nýbúnir að stofna þessa deild í félaginu sem er Hjólabrettadeild Reykjavíkur en við viljum auka veg allra jaðaríþrótta. Við þurfum að athuga að einn af okkar hæst launuðu atvinnumönnum er Halldór Helgason snjóbrettakappi. Hann stundar og æfir svona íþrótt, sem við köllum íþrótt þó að ÍSÍ sé ekki sammála. Við viljum bara að það sé til alvöru aðstaða til að stunda þessar íþróttir eins og aðrar.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×