Lífið

Heldur fyrirlestur í höfuðstöðvum Google

Gunnar Karl Gíslason kynnir bókina vestanhafs á næstunni. Meðal annars verður hann með fyrirlestur í höfuðstöðvum Google.
Gunnar Karl Gíslason kynnir bókina vestanhafs á næstunni. Meðal annars verður hann með fyrirlestur í höfuðstöðvum Google. Vísir/Stefán
Þetta var skemmtileg en gríðarlega mikil vinna. Sérstaklega var gaman að kynnast landinu og öllum því góða fólki sem býr til þetta frábæra hráefni,“ segir Gunnar Karl Gíslason, matreiðslumeistari sem gefur út sína fyrstu matreiðslubók, North: The New Nordic Cuisine of Iceland, á næstu dögum.

Gunnar Karl er löngu orðið þekkt nafn en hann rekur meðal annars Dill Restaurant ásamt því að búa til matseðlana fyrir Sæmund í sparifötunum á Kexi Hosteli og á veitingastaðnum við Hverfisgötu. Gunnar segist lengi hafa gengið með bókina í maganum en það var ekki fyrr en hann hitti matreiðslubókarhöfundinn Jody Eddy að boltinn fór að rúlla.

Þau byrjuðu á að láta umboðsmenn fara með prufukafla milli forlaga vestanhafs sem voru hrifin og á endanum hafði Ten Speed Press í Kaliforníu vinninginn.

„Við höldum á mánudaginn út til að hefja smá kynningartúr um Bandaríkin og byrjum á fyrirlestri í höfuðstöðvum Google sem er mjög spennandi.“

Bókin er umfangsmikil þar sem bæði eru í henni uppskriftir, viðtöl við birgja úti um allt land og ljósmyndir. „Mig langaði að gefa þeim sem sjá okkur fyrir hráefninu í uppskriftunum orðið þar sem þau eru svo stór hluti af útkomunni. Jody sér um að taka þau viðtöl og svo er íslenska landslagið endalaus uppspretta hugmynda. Uppskriftirnar eru svo mínar af Dillinu þar sem má finna til dæmis taðreykta bleikju sem er færð í nútímalegan búning,“ segir Gunnar Karl sem þvertekur fyrir að hann sé að færa sig alfarið yfir í bókaútgáfu um heiminn enda nýtur hann þess að standa í eldhúsinu.

Bókin verður fáanleg frá og með 9. september og hefur þegar fengið lofsamlega umfjöllun í Food & Wine Magazine, Tasting Table, Eater, Food Arts og The Martha Stewart Show.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×