Skoðun

„Störukeppnin“ um LbhÍ

Ólafur Arnalds skrifar
Alþingismaðurinn Haraldur Benediktsson ritaði nýverið merkilegan pistil sem vitnað er til á vefsíðu Skessuhornsins. Hann telur að málefni Landbúnaðarháskóla Íslands séu komin í störukeppni á milli menntamálaráðherra, sem vill sameina LbhÍ og Háskóla Íslands, og yfirstjórnar og akademískra starfsmanna skólans. Auðvitað er stjórn skólans ekki í störukeppni. Stjórnendur skólans eru aðeins að glíma við blákaldan veruleikann: gríðarlegan fjárhagsvanda, uppsagnir starfsfólks, atgervisflótta og annan vanda. Sá vandi hefði ekki komið til hefði komið til sameiningar eins og stefnt var að. Af lestri á pistli þingmannsins er augljóst að hann sjálfur er annar meginaðilanna sem starir mót ráðherranum – eða sjálfum sér. Stjórnendur skólans eru hins vegar að lúta fyrirmælum fjárveitingavaldsins (áðurnefndur þingmaður situr í fjárlaganefnd Alþingis) og orðræðan þaðan er býsna skýr, stórfelldur niðurskurður í starfi skólans er óhjákvæmilegur.

Þingmaðurinn segir að skýr rök séu á móti sameiningunni, sem þó eru ekki tilgreind. Í pistli hans er tiltekið að margir „svokallaðir akademískir starfsmenn“ skólans séu hlynntir sameiningunni. Svo virðist sem þingmaðurinn hafi litla innsýn í starfsemi háskóla. Meginstarfið felst í kennslu og rannsóknum sem unnin eru af akademískum starfsmönnum þeirra. Gæði í starfi háskólanna eru að stórum hluta metin út frá rannsóknavirkni akademískra starfsmanna, án þeirra er enginn háskóli. Akademískir starfsmenn LbhÍ vilja sameiningu út frá faglegum sjónarmiðum til að tryggja gæði í skólastarfinu.

Næst þegar stjórnvöld sýna áræði og reyna að fækka háskólum í landinu, sem eru fáránlega margir í svo fámennu landi, þá er ekki víst að það verði mikið eftir til að sameina. Betra er að sameina nú, áður en kemur til stórfellds niðurskurðar á starfi skólans, einmitt til þess að viðhalda styrk skólastarfsins á starfsstöðum skólans í dreifbýli. Um leið eru hagsmunir nemenda við báða skólana tryggðir með margfalt fleiri möguleikum í náminu, þar sem unnt verður að tengja landbúnaðargreinar, matvælarannsóknir, hagfræði og viðskipti, ferðamálafræði og svo mætti lengi telja. Slík fjölbreytni er vitaskuld til þess fallin að tryggja sjálfstæði í menntun og skólastarfi á Hvanneyri, lítill fjársveltur skóli með einhæft nám er ekki sjálfstæður skóli, heldur stofnun sem á æ erfiðara með að uppfylla kröfur um gæði háskólastarfs, ofurseldur duttlungum stjórnvalda hverju sinni.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×