Menning

Afskaplega íslensk kelling

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Guðrún S. Gísladóttir.
„Ég held að íslenskar kellingar séu dálítið sérstakar, þær eru naglar sem bjarga sér við hvaða aðstæður sem koma upp.“
Vísir/Ernir
Guðrún S. Gísladóttir. „Ég held að íslenskar kellingar séu dálítið sérstakar, þær eru naglar sem bjarga sér við hvaða aðstæður sem koma upp.“ Vísir/Ernir
Konan við 1000° eftir Hallgrím Helgason var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi. Það er Guðrún S. Gísladóttir sem túlkar Herbjörgu Maríu Björnsson, einhverja eftirminnilegustu kvenpersónu sem íslenskar bókmenntir hafa alið. Hvaða skoðun hefur hún á þessari umdeildu persónu og hvernig hefur hún nálgast hana?



„Herbjörg er Ísland eins og það hefði orðið ef það hefði lent í skilvindu seinni heimsstyrjaldarinnar. Það er ekkert flóknara en svo. Persónan er náttúrulega um það bil að drepast á sviðinu, en þó þræðir Herbjörg þetta allt saman. Hún er bæði aðalpersóna verksins og sögumaður þess og er á sviðinu frá upphafi til enda. Þetta er rosalega mikil saga; seinni heimsstyrjöldin og eftirhreytur hennar, rússneski herinn og þýski herinn, auk sögu Íslands frá upphafi síðustu aldar fram á þennan dag. Það var eðlilega nauðsynlegt að sleppa ansi miklu af því sem er í bókinni þar sem einungis sjö leikarar eru í sýningunni, en það held ég hljóti að hafa verið höfuðverkur höfundarins Hallgríms Helgasonar, sem sjálfur skrifaði leikgerðina. Það var hann sem þurfti að velja og hafna.“



Verkið er sýnt í Kassanum en Guðrún segist ekki vita hvað hafi ráðið þeirri ákvörðun. „Þetta hefði auðvitað orðið allt önnur sýning ef við hefðum verið á stóra sviðinu með kóra og sjötíu hermenn og svo framvegis. En þetta litla rými og fáu leikarar skapa hins vegar nánd sem ekki hefði náðst á stóru sviði. Og áherslan hér er á þroskasögu konu.“



Bókin hefur notið mikilla vinsælda og valdið deilum en Guðrún segir það ekki skipta sig neinu máli. „Þessi persóna er auðvitað að minnsta kosti fimmtíu prósent skáldskapur og ég hef ekkert kynnt mér sögu fyrirmyndarinnar eða fylgst með þeim deilum sem spruttu upp um efni bókarinnar. Ég skapa persónuna út frá þeim íslensku kellingum sem ég hef kynnst í gegnum lífið og verður oft hugsað til ömmu minnar og ömmusystur sem voru úr Húnavatnssýslunni og höfðu sannarlega munninn fyrir neðan nefið. Mér finnst Herbjörg nefnilega vera alveg afskaplega íslensk kelling. Ég held að íslenskar kellingar séu dálítið sérstakar, þær eru naglar sem bjarga sér við hvaða aðstæður sem koma upp. Kannski stafar það af því að við höfum alltaf þurft að vinna öll verk í þessu landi. Ég er ekkert viss um að slíkar kellingar fyrirfinnist alls staðar í heiminum.“



Vill leika Pétur Gaut

Talandi um íslenskar kellingar, það blossar alltaf annað slagið upp umræða um að bitastæð hlutverk fyrir leikkonur verði sífellt færri eftir því sem árunum fjölgi. Guðrún segir það vissulega vera alveg rétt, þótt hún viti svo sem ekki hvað valdi því. „Auðvitað er það ferlega fúlt að þegar maður er farinn að kunna miklu meira en maður gerði fyrir tuttugu árum þá sé ekkert hægt að nota það. Þetta er svo sem ekki íslenskt vandamál og það hafa alltaf verið mun færri kvenhlutverk í leikhúsinu. Við þurfum kannski að fara að horfa öðrum augum á þessi stóru hlutverk. Mig hefur til dæmis alltaf langað til að leika Pétur Gaut og Ríkharð þriðja og alla þessa kalla og kannski á ég bara eftir að gera það.“



Guðrún hóf störf í Þjóðleikhúsinu strax að námi loknu en flutti sig yfir til Leikfélags Reykjavíkur og lék þar í tíu ár áður en hún sneri aftur í Þjóðleikhúsið. Hún segist bera sterkar taugar til Þjóðleikhússins og alls ekki vera sama um hvernig framtíð þess verður. Sú athugasemd leiðir talið að væntanlegum leikhússtjóraskiptum sem hún þvertekur fyrir að vita nokkuð um. „Hver er ráðinn hverju sinni er bara geðþóttaákvörðun hjá menntamálaráðherra hvers tíma. Við, starfsfólk hússins, höfum stundum reynt að hafa í frammi einhverjar skoðanir á því en það hefur aldrei verið hlustað á okkur. Mig dreymir um útlendan þjóðleikhússtjóra og reyndi að ræða það bæði við ráðuneytið og þjóðleikhúsráð, en það hafði enginn áhuga á þeirri hugmynd. Okkur vantar einhvern ókunnugan, óvenslaðan, ópólitískan fagmann til að stjórna leikhúsinu eitt tímabil. Ég skil ekki hvað ætti að vera svona hættulegt við það, nema það sé eingöngu litið á þetta sem pólitíska stöðu. Við Íslendingar megum hins vegar fara um allan heim og reka listasöfn og leikhús, enda þykir það sjálfsagt alls staðar í heiminum að ráða erlent fólk í slíkar stöður. Ég held að við séum bara svo hrædd um að klíkuskapurinn okkar myndi ekki virka ef það kæmi utanaðkomandi manneskja í stöðuna.“



Gengur allt í hringi

Það eru 37 ár síðan Guðrún lauk námi í leiklist og hún hefur meira og minna staðið á sviðinu síðan, hvað finnst henni hafa breyst mest í íslensku leikhúsi á þessum árum? „Það er nú það. Eitthvað hlýtur nú að hafa breyst, andskotinn hafi það. En ég bara get ekki svarað þessu, þetta gengur allt í einhverja hringi. Jú, eitt hefur mikið breyst. Þegar ég byrjaði í Þjóðleikhúsinu 1977 þá voru þar yfir þrjátíu fastráðnir leikarar, nú erum við innan við tíu, held ég. Annars eru tölur og ættarnöfn ekki mín sterka hlið. En í fyrra þegar við vorum að leika Eldraunina þá þótti fólki það alveg stórkostlega gaman og furðulegt að sjá sýningu með svona mörgum leikurum, við vorum sautján. Fyrir tuttugu árum þótti bara eðlilegt að það væru þrjátíu leikarar eða meira í einni sýningu. Við gætum til dæmis alveg notað fjörutíu manns í Konuna við 1000° en við erum sjö. Auðvitað er fullt af lausráðnum leikurum við húsið sem hægt er að kalla til, en það er ekki það sama.“



Það er ekki hægt að taka viðtal við listakonu án þess að forvitnast um hvort henni finnist skipta máli að hafa konur við stjórn leikhúsanna. Guðrún segist ekki álíta að það skipti máli. „Það fer bara eftir karakter manneskjunnar hvernig stjórnandi hún er, ekki eftir kyni. Hins vegar finnst mér þessi umræða á svolitlum villigötum. Fyrir það fyrsta finnst mér að við ættum að hafa sömu laun óháð kyni og þótt kona sé ráðin útvarpsstjóri eða verði menntamálaráðherra eða eitthvað þá breytir það ekki launamisréttinu. Svo er þessi kynjakvóti líka stundum notaður sem afsökun fyrir því að ganga fram hjá hæfu fólki. Núna segja allir: Nei, nei, það verður ekki kona þjóðleikhússtjóri næst, við erum búin að hafa konu. Afskaplega skrýtið viðhorf og kemur listinni ekkert við. Mér finnst ansi mörg vopn hafa snúist í höndum okkar kvenmannanna.“



Ekki eins manns starf

Snúum okkur aftur að Konunni við 1000°. Hvernig hefur æfingaferlið gengið? „Það er búið að vera voða gaman að vinna þetta og mér líst mjög vel á þessa ungu konu, Unu Þorleifsdóttur, sem leikstýrir og sömuleiðis Evu Signýju Berger sem gerir leikmyndina og Agnieszku Baranowsku sem gerir búningana. Þetta er skemmtilegur hópur, sem er nú þegar upp er staðið það sem skiptir mestu máli. Starf leikarans er ekki eins manns starf og það er alveg sama hversu gott hlutverkið er, ef vinnan í hópnum er ekki skemmtileg þá deyr það í höndunum á manni.“



Það má ganga út frá því að níutíu prósent þeirra sem koma til að sjá verkið hafi ákveðnar skoðanir á því hvernig persóna Herbjörg er. Eykur það ekki álagið á leikkonuna? „Nei, mér er alveg sama um það. Ég lék Sölku Völku á sínum tíma og það höfðu nú aldeilis allir ákveðnar skoðanir á því hvernig hún ætti að vera. Maður getur ekki látið það hafa áhrif á sig. Ég skapa þessa persónu út frá minni reynslu af íslenskum konum og minni upplifun af henni. Ég er líka afskaplega þakklát þessum stórkarlalega kventexta frá höfundinum, þetta eru virkilega orð í tíma töluð, enda er Herbjörg ekki mjög hrifin af þessari þjóð. Mér finnst hún alveg þrælskemmtileg persóna og tilsvörin hennar eru óborganleg, eini gallinn er að þau eru kannski að verða mér of töm utan sviðs.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.