Menning

Þetta er einyrkjastarf

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Ég hef unnið ýmis störf í gegnum tíðina og finnst yfirleitt gaman að vinna,“ segir Paul og kveðst hafa áhuga á þeirri tækni sem flýti fyrir þýðendum.
"Ég hef unnið ýmis störf í gegnum tíðina og finnst yfirleitt gaman að vinna,“ segir Paul og kveðst hafa áhuga á þeirri tækni sem flýti fyrir þýðendum. Fréttablaðið/Ernir
„Það eru hundrað ár frá því starfsheiti okkar var fært í lög,“ segir Paul Richardson, formaður Félags löggiltra skjalaþýðenda og dómtúlka.

Á málþingi í Iðnó síðdegis í dag ætlar hann að lesa úr þingræðum frá 1913 og 1914 þegar Bjarni frá Vogi lagði fram þingsályktunartillögu um löggildingu þýðinga og dómtúlkunar.

„Menn létu ýmislegt skemmtilegt út úr sér á þingi þá, ekki síður en nú,“ segir hann glaðlega.



Um sjötíu manns eru í félaginu og Paul segir samkomu vegna hundrað ára tímamótanna hafa verið vel sótta. Stjórnin hittist af og til og aðalfundur er einu sinni ári. „Á aðalfundum ætlum við að gera allt mögulegt en svo eru allir á kafi í vinnu og minna verður oft úr,“ viðurkennir hann.



Sjálfur situr Paul við þýðingar á eigin skrifstofu í bílskúr á Grenimelnum og kveðst mest þýða dómsskjöl en líka skjöl um tæknimál í sambandi við fjarskipti.

„Ég hef unnið ýmis störf gegnum tíðina og finnst yfirleitt gaman að vinna. En þetta er einyrkjastarf. Verkefnin koma mest gegnum tölvur og maður hittir sjaldnast nokkurn mann í tengslum við starfið svo það er ekki fyrir alla.“

Málþingið í Iðnó er haldið af Bandalagi þýðenda og túlka og auk Pauls halda erindi þau Pétur Gunnarsson rithöfundur og þýðandi, Guðrún Þórhallsdóttir, dósent í íslensku, Ingibjörg Elsa Björnsdóttir, doktorsnemi í þýðingafræði, og Sigrún Þorgeirsdóttir, ritstjóri hjá Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins.

Þingið hefst klukkan 16.30 og aðgangur er ókeypis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.