Menning

Lífsneistar Leifs í Norðurljósum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Hákon með vöskum hópi hljóðfæraleikara sem ætla að flytja verk föður hans á sunnudaginn.
Hákon með vöskum hópi hljóðfæraleikara sem ætla að flytja verk föður hans á sunnudaginn. Mynd/Vilhelm
„Pabbi hefði orðið áttræður á þessu ári. Tónsmíðarnar hans hafa aldrei flogið hátt en nú verða flutt nokkur af hans helstu verkum. Þau spanna nánast allan tónsmíðaferil hans, allt frá hálfgerðum bernskubrekum til þess síðasta sem hann gerði. Alltaf ný og ný stílbrigði sem taka mið af sögunni,“ segir Hákon Leifsson kórstjóri um tónleika í Hörpu á sunnudag, helgaða minningu föður hans, Leifs Þórarinssonar (1934-1998).

Verkin verða flutt í tímaröð. Elst þeirra er Barnalagaflokkurinn fyrir píanó sem Leifur skrifaði í Vínarborg árið 1954 fyrir Rögnvald Sigurjónsson. Síðar var eftirfarandi setning höfð eftir Rögnvaldi: „Sérstaka ánægju hef ég af Barnalagaflokknum hans Leifs, enda er hann orðinn klassískur og hefur í sér lífsneista sem á eftir að endast lengi.“ Titill tónleikanna er eflaust sóttur í þau orð, Lífsneistar Leifs. Það er Caput hópurinn sem stendur fyrir þessum viðburði en Hákon stjórnar flutningnum að nokkru leyti. Hann kveðst þó aldrei hafa heyrt eitt verkið sem þar verður flutt, Klasar nefnist það. Hákon kallar það píanóflipp. „Það hefur ekki verið flutt síðan árið 1967 þegar pabbi og Atli Heimir léku það saman í Ríkisútvarpinu en Valgerður Andrésdóttir sér um flutninginn núna.“

Afstæður voru samdar í New York árið 1960, fyrir fiðlu, píanó og selló, Hákon segir það stutt og spennandi verk sem geri feikna kröfur til flytjenda, þeir verða þau Auður Hafsteinsdóttir, Bryndís Halla Gylfadóttir og Snorri Sigfús Birgisson.

Síðasta verkið á dagskránni er Grafskrift fyrir Bríeti, við ljóð Matthíasar Jochumsonar. Það var samið fyrir kvenraddir og hörpu og frumflutt við útför Bríetar Héðinsdóttur árið 1996 en aldrei verið flutt á tónleikum áður. Konur úr Kammerkór Grafarvogskirkju syngja það ásamt Elísabetu Waage.

„Þau urðu dálítið samferða gegnum lífið pabbi og Bríet, voru saman í skóla og gott ef ekki Grænuborg. Svo vann pabbi oft í Þjóðleikhúsinu, hún var þar náttúrulega, þannig að þeirra vinfengi var margendurnýjað,“ lýsir Hákon.

Hann getur þess líka að systir sín Alda Lóa sé að útbúa vef um föður þeirra og verið sé að rita allt höfundarverk hans til útgáfu.

Lífsneistar Leifs verða í Norðurljósasalnum á sunnudaginn klukkan 17.15.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×