Menning

Skil ömmur mínar núna

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Þetta var einhvers konar köllun. Ekki bara val,“ segir Jóhanna um myndlistina.
"Þetta var einhvers konar köllun. Ekki bara val,“ segir Jóhanna um myndlistina. Fréttablaðið/GVA
„Ég ætla að halda upp á afmælið þegar kemur fram á vordaga og vonast til að geta gert það með vinum og kunningjum. Það kemur yfir mann þegar tugirnir eru orðnir þetta margir að hugsa aftur í tímann og átta sig á verðmætunum í vináttu þess fólks sem maður hefur deilt tilverunni með.“

Þetta segir Jóhanna Bogadóttir þegar hún er innt eftir áformum sínum í tilefni sjötugsafmælisins sem er í dag.

Jóhanna hefur lengi mundað pensilinn og á yfir hundrað sýningar að baki.



„Ég er enn á kafi í myndlistinni, hún togar í mig endalaust. Mér finnst ég eiga svo margt ógert,“ segir hún brosandi. Þó margir tali um að hætta að vinna um sjötugt eða fyrr segir hún það ekki á dagskrá hjá myndlistarmönnum. Kveðst líka heppin með heilsuna.

„Ég er farin að skilja betur ömmur mínar sem töluðu um það þegar ég var lítil hvað það væri dýrmætt að hafa góða heilsu.“



Sem barn kveðst hún hafa heillast af fallegum litum og fegurð heimsins og langað snemma að lýsa þeirri tilfinningu.

„Ég vildi samt fara í „alvöru“ nám og var í stærðfræðideild MA, tók bara fram vatnslitina á kvöldin á heimavistinni og hélt að ég mundi alltaf hafa myndlistina sem tómstundagaman en um það leyti sem ég tók stúdentsprófið var sú ákvörðun tekin að fara í listnám. Þetta var einhvers konar köllun, ekki bara val.“

Hún lærði bæði í Frakklandi og Svíþjóð og kveðst síðan oft hafa bæði málað og sýnt erlendis.

„Þegar ég dvel í útlöndum verð ég að taka efni með mér og hafa smá vinnuaðstöðu. Það eru mín allra bestu frí. Mig hefur aldrei langað í baðstrandarfrí en auðvitað get ég þráð að vera í sólskini og betra og hlýrra loftslagi, verandi hér í skammdegi og roki. Ég hef verið á framandi slóðum eins og Afríku, Mexíkó og Indlandi sem hafa haft gríðarleg áhrif á mig og mína vinnu,“ segir hún og kveðst eilíflega þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til þess.



„Ég hafði alltaf mikla útlandaþrá og hef í raun búið miklu meira á Íslandi en ég hugsaði mér þegar ég var ung.“



Jóhanna ólst upp í Vestmannaeyjum, meðal annars við rok og brim og segir baráttu mannsins við höfuðskepnurnar hafa verið rauða þráðinn í hennar myndlist. „Hvar sem ég fer um heiminn finn ég fyrir sömu tilfinningum sem færa mig aftur til upprunans.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.