Menning

Bassbarítónar flytja karlmannleg sönglög

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Jóhann Smári Sævarsson, Davíð Ólafsson, Bergþór Pálsson, Viðar Gunnarsson og Kristinn Sigmundsson voru reffilegir á æfingu fyrir tónleikana.
Jóhann Smári Sævarsson, Davíð Ólafsson, Bergþór Pálsson, Viðar Gunnarsson og Kristinn Sigmundsson voru reffilegir á æfingu fyrir tónleikana. vísir/ernir
Af tilefni útgáfu bókanna Bassbar munu einir fremstu bassbarítónar Íslands standa saman á sviði annað kvöld í Salnum og flytja sönglög sem sérstaklega eru útfærð fyrir þeirra raddir.

„Bassbarítónar eru neðri raddir karlmanna og ég ákvað að gefa út bækur fyrir þessa rödd vegna vöntunar á slíku,“ segir Jón Kristinn Cortez, tónlistarkennari og útgefandi bókanna tveggja, en hann er langt kominn með þriðju og fjórðu bókina í flokknum. „Fyrir mörgum árum bað einn af þessum bassbarítónum mig um að lækka fyrir sig lag og tautaði um leið að það séu aldrei skrifuð lög fyrir hans líka. Þegar tónskáld skrifa lög hafa þau ákveðna raddgerð í huga og það vill verða þannig að bassbarítónar ná ekki nógu hátt til að syngja lögin.“

Í framhaldi af þessu samtali einsetti Jón Kristinn sér að leita uppi þau lög sem eru til fyrir röddina og bæta við fleiri lögum sem hann hefur lækkað um einn tón eða einn og hálfan. Lögin eru samtals þrjátíu og tvö og hefur Jón Kristinn fengið fríðan flokk til að flytja lög úr bókinni fyrir sig á útgáfutónleikum.

Jón Kristinn Cortez
„Þessir góðu söngvarar hafa aldrei staðið allir fimm saman á sviði og verður gaman að fylgjast með þeim flytja þessi karlmannlegu sönglög íslenskra tónskálda,“ segir Jón Kristinn, en segir fólk þurfa að meta það sjálft hvort bassbarítónar séu ímynd karlmennskunnar. „Inn á milli er viðkvæmni sem sýnir mjúku hliðina líka,“ bætir hann við hlæjandi. 

Það eru ekki margir sem gefa út tónbækur á Íslandi en nýlega var þó stofnað Samband íslenskra tónbókaútefenda, og er útgáfa Jóns Kristins hluti af því. Jón Kristinn hefur þó lengi verið í bransanum og hóf útgáfu í kringum 1970 en af illri nauðsyn.

„Kennararnir í tónskólanum voru með mjög misgóða handskrift og maður eyddi oft dágóðum tíma í að ráða í skriftina. Það varð til þess að ég fór að leita ýmissa ráða til að skrifa greinilega en það er ekki fyrr en tölvutæknin kom til sögunnar að skurkur verður í þessu.“ 

Meðal vinsælla laga sem samin eru fyrir bassbarítóna eru Sverrir konungur og Nótt en Jón Kristinn segist ekki ætla að bera þau á borð á tónleikunum. „Ég reyni frekar að leyfa fólki að heyra í lögunum sem eru ekki eins mikið sungin til þess að vekja athygli á þeim. Enda alveg þess virði að syngja og hlusta á.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.