Menning

Vísurnar voru mín sáluhjálp

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Egill Eðvarðsson

Fréttablaðið/GVA
Egill Eðvarðsson Fréttablaðið/GVA
Egill Eðvarðsson má ekkert vera að því að mæta í viðtal fyrr en eftir klukkan fjögur, hann er á fullu að stjórna upptökum á Hraðfréttunum. Að því loknu kemur hann galvaskur, býður mér kaffi og spyr hvað mig langi eiginlega að vita um hann. Svarið er ósköp einfalt: Allt bara.

„Ég er fæddur og uppalinn á Akureyri og bjó þar þangað til ég varð stúdent frá MA árið 1967. Pabbi var ljósmyndari og mamma sá um heimilið eins og þá tíðkaðist. Eftir stúdentspróf fór ég í myndlistarnám til Bandaríkjanna í eitt ár. Hélt reyndar að ég ætlaði að verða arkitekt en fékk hvergi inni í það nám en fékk Rótarý-styrk til að læra myndlist og fannst það svo skemmtilegt að þegar ég kom til baka innritaði ég mig í Myndlista- og handíðaskólann. Þremur árum síðar útskrifaðist ég svo sem myndlistarkennari. Hins vegar hef ég aldrei unnið við það því þremur mánuðum áður en ég kláraði það nám komu upplýsingar í skólann og Tónlistarskólann í Reykjavík um að Sjónvarpið væri að sækjast eftir ungum manni eða ungri konu sem hefði bæði myndlistar- og tónlistarmenntun. Ég hafði lært á píanó í sjö ár sem barn og unglingur og hafði náttúrulega myndlistarnámið. Á þessum tíma var ég nýkominn með fjölskyldu, konu og ungan son, og ákvað að stökkva á þetta tækifæri. Á þeim tíma fannst manni sjónvarp reyndar það hallærislegasta sem til var, það var algjörlega botninn. En ég hugsaði mér að ég myndi vinna í tvö þrjú ár og sjá fyrir fjölskyldunni, fara síðan til Amsterdam í framhaldsnám í myndlistinni.“

Fyrsti þátturinn fíaskó

Það var Jón Þórarinsson sem réð Egil til starfans sem upptökustjóri í Sjónvarpinu en það kom Agli mjög á óvart þar sem hann hafði stuttu áður gert sjónvarpsþátt með Kombói Þórðar Hall, þátt sem var svo avant garde að hann var aldrei sýndur og hefur nú verið fargað. „Þessi hljómsveit gekk út á uppákomur og skringilegheit og þegar Andrés Indriðason fékk okkur til að gera sjónvarpsþátt þá varð hann náttúrlega svo sérviskulegur og vitlaus að það náði engri átt. Við heimtuðum að þátturinn yrði tólf og hálf mínúta, allur tekinn á eina vél sem væri tólf og hálfan metra frá okkur, við neituðum að spila, töluðum bara saman án míkrófóna og fengum alls kyns þjóðþekkt fólk til að koma og tala við okkur en ekkert sem sagt var mátti heyrast, það átti bara að spila tónlistina úr Sound of Music yfir allt saman. Eftir að ég var farinn að vinna hér komst ég að því að þessi þáttur hefði verið lagður fyrir Jón og hann og Andrés hefðu tekið þá ákvörðun að þetta yrði ekki sýnt, skiljanlega. Þeim mun óskiljanlegra var að Jón skyldi ráða mig sem upptökustjóra en hann svaraði mér aldrei þegar ég spurði hvers vegna hann hefði valið mig.“

Þú verður aldrei listamaður

Árin hjá Sjónvarpinu urðu heldur fleiri en Egill hafði áætlað í upphafi því þar er hann enn í fullu starfi, nærri fjörutíu og fjórum árum síðar, og hefur stjórnað mörgum af vinsælustu sjónvarpsþáttunum sem sýndir hafa verið á þessum tíma, auk þess að leikstýra tveimur kvikmyndum, Húsinu og Agnesi, og gera sjónvarpsmyndir. Hefur hann aldrei séð eftir því að halda ekki áfram í myndlistinni? „Ég hef reyndar alltaf málað, en þegar ég útskrifaðist árið 1971 þá sagði skólastjóri Myndlista- og handíðaskólans, Hörður Ágústsson, nokkuð sem mér þótti heldur harkalegt þá en átti eftir að reynast rétt. Hann kallaði okkur hvert og eitt inn á skrifstofu til sín til að kveðja okkur og þegar kom að mér sagði hann hreint út að ég yrði aldrei listamaður, ég væri full flinkur og fjölhæfur á svo mörgum sviðum að ég myndi aldrei festa mig við eitthvað eitt, en það væri nauðsynlegt til að ná árangri í listinni. Ég man að ég kom pínulítið niðurbrotinn út úr þessu viðtali en mörgum árum seinna uppgötvaði ég hvað þetta var satt og rétt lesið hjá Herði. Ég er ekki og hef aldrei reynt að vera einhver listamaður, ég veit ekki einu sinni hvað það er, en það að flögra á milli ólíkra listgreina hefur einkennt mig alla tíð. Mér finnst svo óskaplega gaman að öllu, nema reyndar leiðindum, og er alveg óskaplega sáttur við líf mitt og það sem ég hef verið að vinna við.

Mikið tómarúm

Til marks um fjölhæfni Egils þegar kemur að listum er að þessa dagana er að koma út hans fyrsta bók, barnabók með vísum og teikningum eftir hann sjálfan. Hafa skriftirnar fylgt honum lengi? „Ég hef skrifað kvikmyndahandrit, sjónvarpskvikmyndir, barnamyndir og allt mögulegt, en ég hef aldrei skrifað bók. Þannig að á gamals aldri er ég enn að stíga í vænginn við eitthvað sem ég á kannski ekkert að vera að gera.“

Tilkoma bókarinnar á sér langa sögu, hófst fyrir tíu árum þegar tvö yngstu börn Egils fluttu til Englands með móður sinni. „Langflestar vísurnar í bókinni voru skrifaðar á árunum 2004 til 2006. Þá fór þáverandi kona mín í nám til Bretlands og við urðum ásátt um það börnin okkar tvö sem eru tvíburar, strákur og stelpa, fylgi henni en ég verði eftir hér heima með fimmtán ára gamlan son minn af fyrra hjónabandi sem hún hafði gengið í móðurstað.

Fljótlega eftir að hún fer út verður það úr að við ákveðum að skilja og mikið tómarúm myndast í lífi mínu. Þetta var þriðja hjónabandið mitt, þriðja fjölskyldan mín og ég hafði ekki séð annað fyrir en að loks væri ég kominn heill í höfn. Ég á sex börn sem ég tengist öllum náið og held ég sé mikill fjölskyldumaður og þokkalegur pabbi, þannig að þessi skilnaður var mikið tilfinningalegt áfall fyrir mig. Ég óttast að missa sambandið við börnin, sem á þessum tíma voru bara fjögurra ára, þannig að ég fer að skrifa þeim alls kyns sögur og lítil ævintýri þar sem þau eru oftast aðalpersónurnar og fljótlega þróast þetta þannig að ég fer að senda þeim litlar vísupútur sem ég hafði hnoðað saman. Ég hafði aldrei skrifað neinar vísur eða neitt í þá veru áður, en fannst eins og þetta væri leið til að halda nánu sambandi við börnin. Þetta voru eins konar flöskuskeyti milli landa. Við þetta myndaðist einhver strengur okkar á milli sem mér fannst vera svo mikilvægur þannig að ég gengst upp í þessu, án þess að vera nokkuð að velta því fyrir mér hvort eitthvað væri varið í þessar vísur eða ekki, þetta var bara okkar á milli.“

Minnist vinkonu

Nú tíu árum síðar er hluti vísnanna kominn út í bókinni Ekki á vísan að róa ásamt teikningum sem Egill gerði við þær, hvernig kom það til? „Þessar vísur féllu nú í gleymsku eftir að börnin komu heim og ég leiddi ekkert frekar hugann að þeim, en fyrir þremur árum rifjast það upp fyrir mér að einhvers staðar séu þessar vísur niðurkomnar og ég fer að lesa þær. Þá sé ég þarna eina og eina vísu sem mér finnst ekki svo vitlaus. Ég hef þá samband við mikla og góða vinkonu mína, sem nú er látin, Elínu Snædal, sem var frábær íslenskumanneskja og kunni bragfræði út í æsar, og bið hana að kíkja á vísurnar fyrir mig.



Síðan vorum við að henda þessu á milli okkar í tæpt ár, það varð að einhverjum leik hjá okkur, án þess að mér dytti nokkur bók í hug. Elín var mjög hörð við mig þegar kom að bragfæðinni og ég komst ekki upp með nein undanbrögð. Hún nær að fara yfir um hundrað vísur, henti sumum og samþykkti aðrar og ég hlýddi henni auðvitað. Svo gerist það fyrir rúmu ári að Ella deyr í bílslysi og upp úr því fer ég að hugsa að ég ætti kannski að gera eitthvað úr þessu. Við höfðum eytt svo miklum tíma í vísurnar og við skemmt okkur svo vel yfir þessari vileysu allri að mér fannst að ég yrði að sýna því einhvern sóma.“



Teiknað á iPad á Indlandi

Þótt vísurnar væru tiltækar var þó stærsta verkefnið eftir; að myndskreyta þær. Egill hafði reyndar alltaf sent litlar teikningar með þeim til barnanna en þurfti að útfæra þær betur og ákvað að taka sér frí úr vinnu, fara eitthvert til hlýrri landa og teikna eins og óður maður. „Ég hafði nú bara hugsað mér að búa til nokkur eintök af lítilli bók og gefa börnunum mínum og barnabörnum í jólagjöf, útgáfa var enn ekki inni í myndinni. Það er svo um miðjan desember í fyrra sem ég fæ upphringingu frá Völu Matt vinkonu minni sem segist vera búin að finna stað á Indlandi fyrir mig. Hún var þá stödd á Seyðisfirði hjá henni Þóru sem á og rekur hótel á Indlandi og ég var yfir mig hrifinn af þessari hugmynd. Hafði langað til Indlands alveg síðan Bítlarnir voru þar í denn og fyrr en varði var ég búinn að bóka herbergi á hótelinu hjá Þóru í fimm vikur. 15. desember er ég svo mættur þar til að stunda hugleiðslu og teikna, sem ég og gerði. Þetta var þvílíkt upplifelsi, búandi á þessu yndislega hóteli, kynnast Þóru og starfsfólkinu sem allt var dásamlegt. Það endaði með því að ég fór eiginlega ekkert af hótelinu, fékk að borða með starfsfólkinu þótt það væri ekki seldur matur á hótelinu, labbaði um þennan „litla“ bæ þar sem búa sex til sjö hundruð þúsund manns og teiknaði og teiknaði.“



Ellefu stíflur í hjartanu


Afrakstur Indlandsdvalarinnar voru hundrað teikningar, allar teiknaðar á iPad, og Egill sá fram á það að sennilega væri þetta bara efni í bók. „Ég banka upp á hjá þeim í Veröld og þeir segjast ætla að kíkja á þetta og ég er sáttur við það. Á meðan ég er að bíða eftir svari frá þeim fæ ég reyndar um nóg annað að hugsa því ég fæ þær óvæntu upplýsingar að hjartað í mér sé allt stíflað. Þetta kom fram við reglubundið eftirlit en ég hafði ekki fundið fyrir neinu nema því að mér fannst ég vera orðinn svo latur. Ég var orðinn allt of feitur og tengdi þessa leti bara því að ég væri að eldast. Eftir tólf, fjórtán tíma vinnudag hér í sjónvarpinu var ég hættur að nenna að taka upp pensil og vinna næstu sex tímana við að mála í vinnustofunni heima. en, sem sagt, ég fór í hjartaþræðingu og þá kemur í ljós að það eru ellefu stíflur í hjartanu. Þremur dögum síðan fór ég í aðgerð og það var skipt um sex æðar í hjartanu í mér. Ég var í fríi í þrjá mánuði, fór í mánuð í endurhæfingu á Reykjalundi og er núna, fimm mánuðum eftir aðgerðina í betra formi en nokkru sinni. Það var nákvæmlega ekkert drama í þessu en ég tek þetta mjög alvarlega. Finnst ég hafa fengið aðvörun um að nýta lífið betur og er bara á fínu flugi.“

Veraldarmenn hrifust af vísunum og teikningunum og ákveðið var að velja rúmlega þrjátíu þeirra til útgáfu í bókinni Ekki á vísan að róa og Egill segir ferlið hafa verið mjög skemmtilegt. „Ég hafði aldrei kynnst bókaútgáfu fyrr og hafði mjög gaman af því. Þessar vísur, sem voru upphaflega bara sáluhjálp fyrir sjálfan mig, hafa vonandi eitthvað að segja fleiri krökkum en mínum. Ég tileinka bókina börnunum mínum sex og barnabörnunum fjórum og svo eru auðvitað í henni kærar þakkir til Ellu vinkonu minnar.“

Egill er með vinnustofu sína heima.vísir/gva
Verður aldrei neitt úr mér

Egill varð 67 ára fyrir stuttu en það hvarflar ekki að honum að draga sig í hlé. „Ég sagði nú við útvarpsstjóra að ég hefði átt von á því að þeir ætluðu ekki að losa sig við mig á þeim tímamótum og senda mig á stofnun. Hann sagði mér að hafa ekki áhyggjur af því, það væri nóg fyrir svona reynslubolta að gera. Ég hef heldur aldrei hugsað þá hugsun að hætta að vinna en það kemur auðvitað að því með mig eins og aðra og þá bara tekur maður því. Ég hef reynt í gegnum tíðina að líkjast föður mínum sem var einstakur maður og ég mun aldrei ná að líkjast honum nægilega. Hann var svo yndislega ljúfur og góður og sá alltaf eitthvað gott við allt. Honum fannst lífið bara geggjað. Hann dó níutíu og þriggja ára eftir að hafa verið rúmliggjandi heima í tvö ár en það var alveg sama hvenær maður heimsótti hann og spurði hvernig hann hefði það þá sagði hann alltaf: 

„Ég hef það virkilega gott, vinurinn minn.“ Þetta viðhorf hef ég reynt að temja mér, ég er ekki að segja að mér hafi tekist það, en mér finnst þessi tilvera bjóða upp á tækifæri til að gera svo ótrúlega hluti. Ég hef alltaf reynt að gera það sem ég hef tekið að mér vel og búa til eitthvað sérstakt. Ég er svo heppinn maður, mér þykir óskaplega vænt um börnin mín öll, tengdadætur, barnabörn, alla mína góðu vini og reyndar allt fólk – nema leiðinlegt fólk, ég þoli það ekki. Mér finnst gaman að vinna með ungu fólki, eins og þeim Hraðfréttavitleysingum, og bý örugglega yfir þó nokkurri reynslu sem getur komið að gagni. Það verður náttúrulega aldrei neitt úr mér, eins og Hörður sagði, en ég hef örugglega meira gaman af lífinu en margir sem ná miklum árangri á einhverju einu sviði. Mér tekst að njóta þess sem ég hef á hverjum tíma og finnst þessi tilvera meiriháttar .“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×