Menning

Nostrað við hvern hlut

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Lára Gunnarsdóttir verðlaunahafi, Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Ólöf Erla Bjarnadóttir leirlistamaður sem hlaut viðurkenningu fyrir Möttulkviku, kökudisk á fæti, og Sunneva Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Handverks og hönnunar.
Lára Gunnarsdóttir verðlaunahafi, Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Ólöf Erla Bjarnadóttir leirlistamaður sem hlaut viðurkenningu fyrir Möttulkviku, kökudisk á fæti, og Sunneva Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Handverks og hönnunar.
Þessir fuglar slógu í gegn hjá dómnefndinni.
„Ég vinn eingöngu úr íslensku birki sem ég kaupi hjá Skógræktinni. Það hefur verið minn efniviður í tuttugu ár,“ segir Hólmarinn Lára Gunnarsdóttir, sem hlaut Skúlaverðlaunin á nýafstaðinni sýningu Handverks og hönnunar. Þau eru kennd við Skúla Magnússon fógeta sem var frumkvöðull smáiðnaðar í Reykjavík.

„Handverksvinna mín hófst eiginlega um leið og verkefnið Handverk og hönnun var sett á laggirnar fyrir tuttugu árum og fór að auglýsa samkeppnir og sýningar. Þá hætti ég í myndsköpun sem ég hafði verið í fram að því,“ lýsir Lára sem lauk námi frá grafíkdeild Myndlista-og handíðaskólans „í gamla daga“, eins og hún orðar það.

„Í mörg ár vann ég með grafík, teikningu, vatnsliti og fleira þar til ég sneri mér að því að móta hluti úr tré. Það er svo þægilegt að vera handverkskona og þurfa ekki að vera á stalli sem listamaður,“ segir hún glaðlega.



„Það sem ég bý til er ekki fjöldaframleiðsla, heldur er nostrað við hvern hlut,“ segir hún og kveðst hafa selt í Safnabúð Þjóðminjasafnsins, Kirkjuhúsinu, Epal Design í Leifsstöð, í Stykkishólmi og á mörkuðum Handverks og hönnunar.

Spurð hvort hún hafi selt alla sína framleiðslu síðustu tuttugu árin svarar hún: „Já, Handverk og hönnun leggur oft svolítið línurnar með því að gefa fólki kost á að senda inn hluti á sýningar sem hafa ákveðið þema.

Nýsköpunin hjá mér hefur því stundum farið eftir þeim skilyrðum sem þar eru sett.

Ég byrjaði að gera fugla í fyrra sem ég tálga og sýndi á Ráðhúsmarkaðinum í maímánuði í vor en þegar keppt er um Skúlaverðlaunin verða þátttakendur að koma með alveg nýja hluti sem ekki hafa sést áður. Því lagði ég hausinn í bleyti og bjó til þessa fugla sem hlutu náð fyrir augum dómnefndar.“ Lára kallar trémuni sína smávini og er með heimasíðuna smavinir.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×