Lífið samstarf

Heilsuréttir fjölskyldunnar tilbúnir í ofninn

Berglind og Sigurður reka hollustuveitingastaðinn Gott í Vestmannaeyjum, sem þau opnuðu í lok maí. Staðurinn hefur gengið afar vel.
Berglind og Sigurður reka hollustuveitingastaðinn Gott í Vestmannaeyjum, sem þau opnuðu í lok maí. Staðurinn hefur gengið afar vel. Kristbjörg Sigurjónsdóttir
Í hraða nútímasamfélags er fólk alltaf að leita að þægilegum lausnum. Heilsuréttir fjölskyldunnar eru því tilvaldir fyrir marga en þeim þarf aðeins að stinga inn í ofn og hita og þá eru þeir tilbúnir. „Við gáfum út tvær metsölubækur, Heilsurétti fjölskyldunnar, sem við skrifuðum í kjölfar þess að fjölskyldan breytti um mataræði vegna sjúkdóms sonar okkar,“ segir Berglind Sigmarsdóttir, heilsugúrú og höfundur bókanna Heilsuréttir fjölskyldunnar sem komu út árin 2012 og 2013. Hún skrifaði bækurnar ásamt manni sínum, Sigurði Gíslasyni matreiðslumeistara.

„Bókunum var mjög vel tekið og fólk var ánægt með þær. Við komumst að því eftir að hafa breytt mataræði okkar að það er best að borða sem minnst unninn mat og gott að elda frá grunni, eins og eiginlega allir vita í dag. Ég hins vegar rak mig á að það var óraunhæft að allir hefðu tíma eftir langan vinnudag að fara inn í eldhús og eyða þar löngum tíma í að gera allar sósur og allt sem þarf í heilsurétt frá grunni og nota engan pakkamat. Við vildum því taka drauminn aðeins lengra og fórum að framleiða mat fyrir fólk sem væri eins og hann væri gerður í eldhúsinu heima.“

Engin aukaefni í réttunum

Heilsuréttir fjölskyldunnar eru komnir á markað og eru þrjár mismunandi tegundir í boði; grænmetislasagna, indverskar grænmetisbollur og gulrótarbuff. „Í réttunum eru engin aukaefni, engin rotvarnarefni, litarefni eða fylliefni. Margir vilja mat án viðbætts sykurs og aðrir vilja glútenlaust fæði. Við reynum að hafa matinn lausan við flest það sem fólk er með ofnæmi og óþol fyrir þannig að það geti nálgast hreinan mat sem er tilbúinn og þarf bara að hita upp. Grænmetislasagnað okkar er að vísu með heilhveitiblöðum og þá með glúteni í en við slepptum ostinum þannig að þeir sem vilja mjólkurvörulaust fæði geta fengið sér það. Þeir sem vilja ost geta keypt sér poka af rifnum osti um leið og þeir kaupa lasanjað og stráð ostinum yfir áður en rétturinn fer inn í ofn,“ útskýrir Berglind og brosir.

Indversku grænmetisbollurnar eru með jógúrtsósu og döðlumauki þannig að það eina sem þarf að gera við þann rétt er að hita hann upp, þá er hann tilbúinn með sósu og tilheyrandi.

Verð í lágmarki

Berglind segir ferlið við framleiðslu réttanna hafa tekið langan tíma. „Það er miklu auðveldara að nota þessi aukaefni sem eru notuð svo mikið í dag. Það er hagkvæmara fyrir fyrirtækin og maturinn endist lengur í búðum. Við notum til dæmis kraft sem er gerlaus og krydd sem eru laus við msg og það tekur tíma að finna slíkt í stórum umbúðum eins og við þurfum. Við gerum miklar kröfur og það er heilmikið ferli að standa undir þeim,“ bætir Berglind við. 

Hún segir verði réttanna vera haldið í lágmarki og að þeir séu alls ekki dýrir miðað við gæði. „Við notum mikið af grænmeti í réttina okkar, það er ekki bara ein og ein grein á stangli í þeim, maður finnur virkilega fyrir grænmetinu í réttunum. Við notum líka mikið af heilnæmu kryddi sem eru góð fyrir líkamann, til dæmis túrmerik. Við þróuðum alla réttina sjálf, við ákveðum allt innihald þeirra og pöntum hráefnið. Svo eru þeir framleiddir eftir okkar kröfum.“

Hafa slegið í gegn

Á dagskrá er að setja fleiri rétti frá Heilsuréttum fjölskyldunnar á markað og fá meiri fjölbreytni í línuna. „Við erum með ákveðnar hugmyndir um það sem við viljum bæta við en þessir réttir sem komnir eru á markað hafa algjörlega slegið í gegn og margir sem hafa greinilega beðið eftir því að fá hreinan mat, bragðgóða rétti fulla af næringarefnum sem auðveldlega er hægt að skella í ofninn,“ segir Berglind.

Réttirnir fást í flestum verslunum á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×