Menning

Sýning á sögu skjaldarmerkis Íslands

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Andrés Úlfur Helguson með verk langafa síns.
Andrés Úlfur Helguson með verk langafa síns. Vísir/Valli
Sýningin Tryggvi Magnússon og skjaldarmerkið var opnuð þann 1. desember á Landsbókasafninu í tilefni þess að 70 ár eru liðin frá því að Ísland varð lýðveldi.Landsbókasafnið Háskólabókasafn stendur fyrir sýningunni ásamt langafabarni Tryggva, Andrési Úlf Helgusyni. „Hann langafi var myndlistamaður eða eins og Goddur sagði þá var hann líklega fyrsti grafíski hönnuðurinn á Íslandi sem starfaði alfarið sem slíkur,“ segir Andrés, en teikningarnar af skjaldarmerkjunum eru einungis lítið brot af verkum Tryggva.

„Amma mín, Þórdís Tryggvadóttir, varðveitti allt hans æviverk í myndum og riti og ætli teikningarnar séu ekki um 3.000 talsins. Á þessu lá hún eins og ormur á gulli til fjörutíu ára og enginn fékk að róta í þessu. Ég gafst hins vegar ekki upp og fékk við og við að skoða myndirnar. Það fór svo að lokum þannig að fjölskyldan ákvað í sameiningu að gefa Landsbókasafninu verk hans,“ segir Andrés, en þar voru verkin hreinsuð og númerið og voru verkin færð Landsbókasafninu og sett í forvörslu og skráð. 

Þessi sýning verður líklega sú fyrsta af mörgum en Tryggvi á stórbrotinn feril að baki. Hann var annar tveggja teiknara Rafskinnu 1933-1943, myndskreytti fjölda barnabóka og þjóðsagna ásamt því að vera aðalhönnuður og teiknari Alþingishátíðarinnar 1930. Á sýningunni má sjá margar tillögur Tryggva og annarra teiknara að lýðveldisskjaldarmerki auk eldri skjaldarmerkja Íslands.

„Það er áhugavert að sjá þróunina og á tímabili voru hugmyndir um að breyta merkinu í fálkamerki. Fyrir stofnun Lýðveldisins 1944 voru helstu myndlistarmenn þjóðarinnar fengnir til þess að gera tillögur að nýju skjaldarmerki, svokölluðu lýðveldismerki. Teikning Tryggva var samþykkt og opinberuð á ríkisráðsfundi 17. júní 1944 sem skjaldarmerki lýðveldisins Íslands. Kórónan frá merkinu 1919 var felld í burtu af merkinu og undirstöðunni breytt.

„Að auki var landvættunumí merkinu breytt, sem er skemmtilegt því langafi var byrjaður að teikna landvættirnar að minnsta kosti 20 árum áður,“ segir Andrés, sem nú vinnur að gerð ævisögu um langafa sinn. Hann biðlar því til þeirra sem einhverjar upplýsingar hafa um langafa hans eða þeirra sem vantar upplýsingar um hann og verk hans að hafa samband við sig og senda tölvupóst á netfangið skjaldarmerkid@gmail.com. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×