Fótbolti

Ítalski boltinn | Sampdoria kom til baka

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik Sampdoria og Chievo í dag.
Úr leik Sampdoria og Chievo í dag. Vísir/Getty
Sex leikir fóru fram í ítalska boltanum í dag.

Birkir Bjarnason sat allan tímann á bekknum þegar Sampdoria vann Chievo á heimavelli með tveimur mörkum gegn einu. Cyril Théréau kom gestunum yfir með marki úr vítaspyrnu, en þrátt fyrir að vera einum færri síðasta hálftímann tókst heimamönnum að tryggja sér sigurinn. Éder jafnaði leikinn á 81. mínútu og á lokamínútunni skoraði Roberto Soriano sigurmark Sampdoria.

Stefano Mauri og Antonio Candreva skoruðu mörk Lazio í 2-0 sigri á Liverno á útivelli. Liverno hefur aðeins fengið eitt stig í síðustu sjö leikjum og situr í fallsæti deildarinnar.

Cagliari vann Parma með einu marki gegn engu á heimavelli. Mauricio Pinilla skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu á 35. mínútu, en Parma lék einum færri síðustu 37 mínútur leiksins eftir að Brasilíumanninum Felipe var vikið af velli. Þetta var fimmta tap Parma í síðustu sjö leikjum, en þar á undan hafði liðið leikið 18 leiki í röð án þess að tapa.

Mörk frá Omar El Kaddouri og Ciro Immolbile tryggðu Torino 2-0 sigur á Udinese og Atalanta og Genoa skildu jöfn 1-1. Paolo De Cegile kom Genoa yfir en Giuseppe De Luca jafnaði leikinn átta mínútum fyrir leikslok. Daniele Portanova fékk að líta rauða spjaldið í liði Genoa.

Á morgun sækja Ítalíumeistarar Juventus nýliða Sassoulo heim.

Úrslit dagsins:

Verona 4-0 Catania

Sampdoria 2-1 Chievo

Livorno 0-2 Lazio

Cagliari 1-0 Parma

Torino 2-0 Udinese

Atalanta 1-1 Genoa




Fleiri fréttir

Sjá meira


×