Jarðskjálftahrinan sem hófst uppúr kl 3 í gærmorgun heldur áfram við Bárðarbungu. Virknin hefur færst til og er nú í tveimur þyrpingum, norðan og austan við Bárðarbungu en þetta kemur fram í tilkynningu Veðurstofu Íslands. Vísindamenn telja að virknin orsakist af innskotavirkni kviku í jarðskorpunni.
Engin merki sjást enn um að gos sé hafið. Ekkert hægt að útiloka að atburðarrásin sem nú er í gangi leiði til eldgoss utan jökuls eða undir honum. Gos undir jökli geta leitt til flóða i ám sem renna frá honum. Vísindamenn og Almannavarnir fylgjast vel með ástandinu og óvissustig er enn í gildi.
„Við ræddum stöðuna eins og hún er núna. Jarðskjálftavirknin er viðvarandi á svæðinu. Þessi virkni stafar af kvikuhreyfingum en ekkert gos er hafið. Það er ekkert ólíklegt að það hefjist samt sem áður,“ segir Kristín Jónsdóttir, Fagstjóri Jarðskjálftavár Veðurstofu Ísland, í hádegisfréttum Bylgjunnar.
