Menning

Víkingur og Brahms

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Víkingur Heiðar mun leika mörg tóndæmi í kvöld.
Víkingur Heiðar mun leika mörg tóndæmi í kvöld. Fréttablaðið/GVA
Víkingur Heiðar Ólafsson, píanóleikarinn snjalli, mun fjalla um Píanókonsert númer 1 í d-moll eftir Brahms í kvöld í Norðurljósasal Hörpu.

Þann konsert ætlar hann einmitt að flytja ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Cristians Mandeal á tónleikum sveitarinnar í Hörpu 23. og 24. janúar.

Víkingur Heiðar ætlar líka í kvöld að tala almennt um Brahms og helstu einkenni tónsmíða hans, um túlkunarmöguleika í píanókonsertinum og um ferlið við að læra verkið en sjálfur er hann að fara að flytja það í fyrsta sinn opinberlega. Allt fer þetta fram við flygilinn þar sem Víkingur Heiðar mun leika fjölmörg tóndæmi.

Píanókonsert númer 1 í d-moll er fyrsta stóra hljómsveitarverk Brahms, eins konar sinfónía fyrir píanó og hljómsveit. Brahms frumflutti hann aðeins 26 ára gamall.

Allir eru hjartanlega velkomnir á kvöldstundina í Norðurljósum sem Vinafélag Sinfóníuhljómsveitarinnar stendur fyrir. Aðgangur er ókeypis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×