Menning

Fiðlan er sögumaður

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Stundum fer ég út og spila fyrir fuglana og kanínurnar í kring,“ segir Alda Áslaug sem býr úti í skógi.
"Stundum fer ég út og spila fyrir fuglana og kanínurnar í kring,“ segir Alda Áslaug sem býr úti í skógi. Fréttablaðið/Daníel
„Ég er að æfa á fiðlu og samdi lagið á hana. Fiðlan er líka aðalhljóðfærið í laginu mínu, hún er svona sögumaður.

Lagið byrjar í vestrænum stíl, svo kemur bogastrokskafli, svoldið rokkaður, og þá er eins og maður sé að ferðast en seinni kaflinn er í austrinu. Þar er pentatónískur tónstigi, dálítið asískur. Lagið endar svo aftur í vestrinu.“

Þannig lýsir hin ellefu ára Alda Áslaug Unnardóttir laginu sínu Vestrið og austrið sem flutt verður í Hörpu í dag.

Hún er einn þeirra krakka, á aldrinum tíu til fimmtán ára, sem taka þátt í Upptaktinum, tónsköpunarverðlaunum barna og ungmenna í ár.

Þeir fengu aðstoð tónskálda til að fullvinna hugmyndir sínar og á tónleikum í Hörpunni klukkan 17 í dag hljóma verk þeirra í flutningi atvinnutónlistarfólks.

Hugmyndina að Upptaktinum á Steinunn Birna Ragnarsdóttir, tónlistarstjóri Hörpu, sem þykir mikils virði að sinna barnamenningu á þennan hátt.

Alda Áslaug er auðvitað spennt að heyra lagið sitt. „Greta Salóme er á fiðlunni og tónskáldið sem ég vann útsetninguna með og heitir Kristín Haraldsdóttir spilar á víólu.

Svo er líka bassi, selló, klarínett og píanó. Ég er búin að hitta Kristínu nokkrum sinnum og það var rosalega gaman að vinna með henni,“ segir Alda Áslaug sem kveðst hafa samið seinni hluta lagsins þegar hún var að taka annars stigs próf í tónlistarskólanum.

„Svo tók ég grunnpróf, þá samdi ég fyrri hlutann og setti svo kaflana saman. Síðan tók ég það upp og sendi í Upptaktinn.“

Alda Áslaug er í Tónskóla Sigursveins við Engjateig en byrjaði að læra á fiðluna þegar hún var fimm ára og þá í Suzuki-skólanum.

„Ég hef líka æft á píanó og svo spila ég á gítar og er í hljómsveit,“ segir þessi ungi snillingur sem býr úti í skógi, rétt við Elliðavatn og finnst það ævintýralegt.

„Stundum fer ég út og spila fyrir fuglana og kanínurnar í kring. Þau eru ánægð með það.“

En taka fuglarnir undir? „Nei, þeir hlusta bara og kanínurnar halla undir flatt!“

Býst hún ekki við að halda áfram að semja tónlist? „Jú, ég ætla að reyna það. Mig langar mjög mikið að semja Eurovisionlag.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.