Menning

Land milli leikhúss og tónleika

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Tónarnir og hljóðin leiða okkur áfram,“ segir Herdís Anna sem hér er með eiginmanninum Steef van Oosterhout.
"Tónarnir og hljóðin leiða okkur áfram,“ segir Herdís Anna sem hér er með eiginmanninum Steef van Oosterhout.
Það stemmir allt hjá hjónunum Herdísi Önnu Jónsdóttur víóluleikara og Steef van Oosterhout slagverksleikara sem mynda Dúó Stemmu. Þau verða í jólaskapi í Hannesarholti á morgun, sunnudag, og ætla að vera þar með tónleikhús fyrir börn klukkan 11.30.

„Þetta er splunkunýtt ævintýri um Fíu frænku og vini hennar. Hún Fía er á ferðalagi með besta vini sínum, Dúdda, en í fjallasal er rödd Dúdda stolið,“

segir Herdís Anna þegar hún er spurð út í efnið sem dúóið ætlar að flytja. Hún fullvissar mig um að góðir vinir hjálpi til við leitina en hvernig fer vill hún ekki upplýsa.

Þau Herdís Anna og Steef eru hljóðfæraleikarar í Sinfóníunni og þetta er hin hliðin á þeim, að spila fyrir börn á öllum aldri og breyta tónunum í ævintýri. Það hafa þau gert í tíu ár.

„Við leikum á ýmis hljóðfæri og líka óhefðbundna, heimatilbúna hljóðgjafa og komum mest fram í skólum og leikskólum,“ upplýsir Herdís Anna.

„Tónarnir og hljóðin leiða okkur áfram í sögunum og ævintýrunum. Tónleikhús er nokkurs konar land milli leikhúss og tónleika.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×