Erlent

Kim Jong-un dæmir 33 til dauða

Karl Ólafur skrifar
Einræðisherrann hreinsar til í stjórn sinni.
Einræðisherrann hreinsar til í stjórn sinni. Mynd/AFP
Kim Jong-un, einræðisherra í Norður-Kóreu hefur dæmt 33 landa sína til dauða fyrir áform um að steypa ríkjandi stjórn af stóli eftir að í ljós kom að þeir höfðu unnið með suðurkóreska baptistatrúboðanum Kim Jung-wook. Höfðu þeir fengið hjá honum fé til þess að setja á laggirnar allt að 500 leynilegar kristnar kirkjur.

Leynilegt kirkjusamsæri

Jung-wook var handtekinn og fangelsaður á síðasta ári fyrir að hafa skipulagt stofnun leynilegra kirkna. Í síðustu viku hélt hann fjölmiðlafund þar sem hann baðst fyrirgefningar fyrir „andríkis“-glæpi sína, og bað um að vera leystur úr varðhaldi. Á fundinum sagði Jong-wook frá því hvernig hann var handtekinn snemma í október 2013 eftir að hafa laumast inn í Norður-Kóreu gegnum Kína. Þá hafði hann einnig reynt að komast með Biblíur, kristilegt fræðsluefni og kvikmyndir inn í höfuðborg Norður-Kóreu, Pjongjang.

Sagðist hann hafa notið aðstoðar suðurkóresku leyniþjónustunnar við bæði skipulagningu og fjármögnun aðgerðanna. Leyniþjónusta Suður-Kóreu segir frásögn Jung-wook lygi, og segir honum hafa verið rænt af norðurkóreskum útsendurum frá Kína og að hann sé því ekki á þeirra snærum.

Meðan á fjölmiðlafundinum stóð sýndu norðurkóreskir embættismenn ljósmyndir af fólki sem hafði játað að hafa átt samskipti við trúboðann.

Þungar refsingar

Sérfræðingar telja að Norður-Kóreumönnum sé refsað harðar nú en fyrr þar sem Kim Jong-un glímir við mikla óánægjustrauma vegna einangrunarstefnu stjórnarinnar. Jong-un hefur verið ötull við að hreinsa úr stjórn sinni. Jang Song Thaek, frændi einræðisherrans, var aflífaður í desember eftir að hann var sakaður um að hafa áformað að bylta kommúnistastjórninni. Að auki hafa þrír varnarmálaráðherrar og þrír hershöfðingjar verið líflátnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×