Erlent

Leiðtogar ESB funda um Úkraínu á morgun

Samúel Karl Ólaon skrifar
Úkraínskir hermenn standa vörð um flugstöð á Krímskaga
Úkraínskir hermenn standa vörð um flugstöð á Krímskaga Vísir/AFP
Evrópusambandið mun íhuga viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi, dragi þeir ekki úr aðgerðum sínum í Úkraínu, samkvæmt utanríkisráðherra Frakklands, Laurent Fabius. Leiðtogar sambandsins munu funda á morgun og þá verður ástandið í Úkraínu rætt.

CNN segir frá þessu.

„Innrás eins lands inn í annað er í bága við öll alþjóðalög. Við verðum að snúa aftur til viðræðna og hafa í huga að Úkraína ætti að vinna með bæði Rússlandi og ESB,“ sagði Hann. „Við, sem meðlimir alþjóðasamfélagsins, getum ekki sætt okkur við að land ráðist inn í annað land.“

Í Rússlandi stendur nú yfir vinna að lögum sem myndi leyfa yfirvöldum í landinu að gera eignir fyrirtækja frá Evrópu og Bandaríkjunum upptækar, ef viðskiptaþvingunum verður beitt gegn Rússlandi.

Andrei Klishas, þingmaður á efri deild rússneska þingsins, segir lögin muna veita forsetanum og ríkisstjórninni tækifæri til að verja fullveldi Rússlands gegn ógnum.

Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands sagði í dag að erfiðleikatímarnir í Úkraínu hefðu hafist þegar alþjóðasamfélagið hafi ekki brugðist gegn óöldunni sem olli því að Viktor Yanukovych, fyrrverandi forseti Úkraínu, féll frá völdum.

„Það varð valdarán og löggildur forseti landsins var rekin frá völdum með aðferðum sem voru hvorki í stjórnarskrá Úkraínu né lögum.“

Lavrov mun hitta John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna á næstunni og munu þeir reyna að draga úr spennu á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×