Erlent

Vill friðarsamning fyrir 29. apríl

Freyr Bjarnason skrifar
Obama og Netanjahú ræddu saman í Hvíta húsinu í gær.
Obama og Netanjahú ræddu saman í Hvíta húsinu í gær. Mynd/AP
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segir að Benjamin Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, þurfi að taka „erfiðar ákvarðanir“ til að ljúka friðarviðræðum við Palestínumenn.

Obama vonast til að friðarsamningur verði gerður fyrir 29. apríl næstkomandi en lítið hefur þokast áfram í friðarviðræðunum síðan í júlí síðastliðnum þegar þær hófust eftir þriggja ára hlé.

„Það er enn mögulegt að búa til tvö ríki, gyðingaríkið Ísrael og Palestínuríki þar sem fólk lifir í sátt og samlyndi við frið og öryggi,“ sagði Obama.

„En það er erfitt að framkvæma það. Báðir aðilar þurfa að gera málamiðlanir.“

Netanjahú, sem heimsótti forsetann í Hvíta húsinu í gær, sagði að Ísraelar byggjust við því að hann stæði fastur á sínu og að Palestínumenn hefðu ekki lagt sitt af mörkum upp á síðkastið til að draga úr spennunni á svæðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×