Erlent

Samkynhneigðum karlmönnum verði ekki lengur óheimilt að gefa blóð

Bjarki Ármannsson skrifar
Breytinga er að vænta í reglugerð um blóðgjöf í Bandaríkjunum.
Breytinga er að vænta í reglugerð um blóðgjöf í Bandaríkjunum. Vísir/Hari
Sam- og tvíkynhneigðum karlmönnum ætti ekki lengur að vera óheimilt að gefa blóð. Þetta segir í áliti Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA).

Fréttastofa BBC greinir frá. Þessu banni var komið á á níunda áratugnum þegar HIV-faraldur herjaði á heimsbyggðina. Lönd á borð við Bretland, Ástralíu og Spán hafa aflétt banninu á undanförnum árum en þess má geta að það er enn við lýði hér á Íslandi.

Í Bandaríkjunum hefur banninu lengi verið mótmælt og það sagt ýta undir fordóma gegn sam- og tvíkynhneigðum karlmönnum. Til að mynda segja Bandarísku læknasamtökin að engin vísindaleg rök liggi lengur að baki banninu.

Nú stendur til að semja tillögur að nýrri reglugerð um blóðgjöf karlmanna sem verður svo tekin til skoðunar snemma á næsta ári. Samkvæmt tilkynningu FDA verður karlmönnum sem hafa stundað kynlíf með öðrum mönnum innan tólf mánaða þó enn bannað að gefa blóð.


Tengdar fréttir

Kominn tími á að endurskoða reglur um blóðgjafir

Lögsögumaður Evrópudómstólsins dregur í efa að réttmætt sé að banna karlmönnum, sem stunda kynlíf með sama kyni, að gefa blóð. Lögfræðingur segir að það sé tími til kominn að endurskoða reglur um blóðgjafir hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×