Fótbolti

Leikmenn Írans mega ekki skipta um treyjur á HM í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Írans verða að passa upp á treyjurnar sínar á HM í sumar.
Leikmenn Írans verða að passa upp á treyjurnar sínar á HM í sumar. Vísir/AFP
Íran verður meðal þátttökuþjóða á HM í fótbolta í Brasilíu í sumar en  leikmenn liðsins verða að passa upp á treyjurnar sína á heimsmeistaramótinu og hafa ekki leyfi til að  láta þær frá sér eftir leikina.

Íranska knattspyrnusambandið hefur áhyggjur af því að þeir eigi hreinlega ekki nógu mörg sett af landsliðsbúningnum fari leikmenn að gefa þær frá sér eftir hvern leik.

„Við munum ekki láta okkar leikmenn fá nýja treyju í hverjum leik. Þeir þurfa að hagsýnir og passa upp á treyjurnar sínar," sagði Ali Kafaschian formaður knattspyrnusambands Írans.

Nokkrir leikmenn íranska landsliðsins hafa kvartað undan búningum landsliðsins sem þykja ekki vera nein gæðavara. Markvörður landsliðsins sagði meðal annars frá því að búningurinn hans hafi farið úr XL í M við fyrsta þvott.

Forseti knattspyrnusambandsins vill þó ekkert heyra af þessu og kennir klaufagangi markmannsins í þvottahúsinu um hvernig fór fyrir treyjunni.

Íranir eru í riðli með Nígeríu, Argentínu og Bosníu á HM í Brasilíu en það lítur út fyrir að enginn leikmaður liðsins fái að skipta um treyju við Lionel Messi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×