Fótbolti

Balotelli þarf að þroskast ef Mancini tekur við Ítalíu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hey, þú. Þroskast!
Hey, þú. Þroskast! vísir/getty
Roberto Mancini, fyrrverandi þjálfari Inter og Manchester City, er meira en klár í að taka við ítalska landsliðinu sem er þjálfaralaust.

Mancini yfirgaf Galatasaray í vor eftir eitt ár við stjórnvölinn hjá tyrkneska félaginu, en eftirmaður hans er Cesari Prandelli sem stýrði Ítalíu á HM.

Prandelli gerði nýjan tveggja ára samning við ítalska knattspyrnusambandið fyrir HM í Brasilíu en eftir að liðið féll úr leik í riðlakeppninni sagði hann af sér.

„Það yrði algjör heiður fyrir mig að þjálfa Ítalíu,“ segir Mancini í viðtali við ítalska íþróttablaðið Corriere dello Sport.

Ítalska liðið var gagnrýnt fyrir að vera of gamalt á HM í Brasilíu en Mancini tekur ekki undir það. „Leikmennirnir of gamlir? Aldur skiptir engu máli,“ segir hann.

Stjörnuframherji ítalska landsliðsins er Mario Balotelli, leikmaður AC Milan. Mancini og Balotelli unnu saman hjá Inter og síðar Manchester City, en það er vægt til orða tekið þegar sagt er að þeir hafi ekki alltaf átt skap saman.

„Ég elska Balotelli en hann þarf að þroskast. Það er hægt að byggja þetta lið í kringum Marco Verratti og Ciro Immobile,“ segir Roberto Mancini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×