Erlent

Vilja kjósa um nýjan þjóðfána

Freyr Bjarnason skrifar
Þessi svarti fáni gæti orðið næsti þjóðfáni Nýja Sjálands.
Þessi svarti fáni gæti orðið næsti þjóðfáni Nýja Sjálands. Mynd/AP
Nýsjálendingar ætla að kjósa um hvort þeir vilji breyta þjóðfána sínum, sem margir telja að tengist um of nýlendufortíð landsins.

Forsætisráðherrann John Key hefur tilkynnt að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin innan þriggja ára. Stjórnarandstæðingar segjast ætla að halda málinu til streitu, jafnvel þótt þeir beri sigurorð af Key í þingkosningum í haust.

Gagnrýnendur þjóðfánans segja að hann líkist um of ástralska fánanum og endurspegli því ekki aukið sjálfstæði Nýja Sjálands frá nýlenduherra sínum Bretlandi. Key segist sjálfur vilja fána með silfurlitaðri fjöður með svörtum bakgrunni en þannig fánar eru vinsælir á meðal nýsjálenskra íþróttaliða. Andstæðingar þess fána segja hann líkjast um of íþróttafánum og sé einnig of líkur sjóræningjafánum.

Ekki er víst hversu mikinn stuðning nýr þjóðfáni myndi fá í Nýja Sjálandi. Í skoðanakönnun í síðasta mánuði vildu aðeins 28 prósent aðspurðra breytingu á núverandi fána.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×