Innlent

Tvöfalt meira hraun en í Kröflueldum

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Egill/Bítið
„Það sem er óvenjulegt við þetta gos er að það heldur áfram af fullum krafti þó það sé búið að vera í gangi í mánuð. Langflest gos eru eins og það springi blaðra. Það er mikið gangi fyrst og síðan hægir og svo seitlar það í lokin og hættir síðan.“

Þetta sagði Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Þar ræddi hann jarðhræringarnar við norðanverðan Vatnajökul.

Hann sagði að enn sem komið væri hefði gosið ekki framleitt nema um einn tuttugasta af því hrauni sem varð til í Skaftáreldum. Þó væri magnið orðið tvöfalt meira en í Kröflueldum.

„Sem stendur er þetta orðið þokkalega stórt hraungos, en flokkast ekkert með stórgosum ennþá.“

Spurður út í jarðskjálftavirkni við Bárðarbungu og mögulegt eldogs þar sagði Magnús Tumi slíkt vera einan af þremur möguleikum í stöðunni. Einn væri að gosið haldi áfram eins og það er í dag og hætti fyrr eða síðar.

„Síðan gæti líka, ef meira losnar um tappann í Bárðarbungu, pípan brostið á nýjum stað og undir jöklinum líklegast. Þá fengjum við aðra mynd. Þá færi af stað gos undir jökli og svo sprengigos með öskufalli eins og við sáum í Grímsvötnum og Eyjafjallajökli.

Þriðji möguleikinn er að það losni um kvikuna undir Bárðarbungu og hún fari beint upp í öskjuna og þar er hins vegar 800 metra þykkur ís og gosið þarf að vinna sig í gegnum það. Það er eitthvað sem getur vel gerst og gerðist reyndar fyrir átján árum í gjálpargosinu. Þá fór gosið á 30 klukktímum í gegnum 600 metra þykkan ís.

Það getur verið, ef það gýs í Bárðarbungu að það bræði ís og þá safnast saman vatn í öskjunni og það gæti komið miklu stærra hlaup að lokum. Það eru margir óvissuþættir,“ sagði Magnús Tumi.

Þá sagði hann að gliðnun landsins við gosstöðvarnar sé mikil.

„Það má ekki gleyma því að landið er alltaf að stækka og það gleikkar um tvo sentímetra á ári.“

Hann sagði þá teygingu sem hafi orðið á landinu í kringum jarðhræringarnar samsvari meðalgliðnun hundrað til hundrað og fimmtíu ára.


Tengdar fréttir

Dulbúnir menn virtu lokanir að vettugi

Þrí menn sem ákærðir hafa verið fyrir að fara inn á gosstöðvarnar við Holuhraun í leyfisleysi fóru þangað öðru sinni á dögunum. Þá í dulargervi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×