Fótbolti

Kólumbía byrjar vel

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leiknum í dag.
Úr leiknum í dag. Vísir/Getty
Kólumbía vann Grikkland með þremur mörkum gegn engu í C-riðli á HM í Brasilíu í dag, en leikið var í Belo Horizonte. Grikkland hefur nú tapað sex af þeim sjö leikjum sem liðið hefur leikið á HM frá upphafi.

Vinstri bakvörðurinn Pablo Armero kom Kólumbíu yfir á 5. mínútu þegar hann skaut boltanum í varnarmann Grikkja og inn eftir fyrirgjöf Juans Cuadrado.

Grikkir voru meira með boltann eftir mark Armeros en þeim gekk illa að skapa sér opin færi. Næst komust þeir að jafna þegar David Ospina varði gott skot Panagiotis Kone rétt fyrir hálfleik.

Framherjinn Teofilo Gutiérrez bætti svo öðru marki Kólumbíu við á 58. mínútu eftir að Abel Aguilar framlengdi boltann til hans eftir hornspyrnu James Rodríguez.

Fimm mínútum síðar fékk svo Theofanis Gekas upplagt tækifæri til að minnka muninn þegar hann skallaði boltann í slána af stuttu færi eftir fyrirgjöf Vasilis Torosidis.

Rodríguez kórónaði svo frábæran leik sinn með því að skora með góðu skoti á þriðju mínútu í uppbótartíma. Lokatölur 3-0, Kólumbíu í vil.

Á morgun mætast Fílabeinsströndin og Japan í öðrum leik riðilsins.





Kólumbíska liðið fyrir leik.Vísir/Getty
James Rodríguez og Pablo Armero fagna marki þess síðarnefnda.Vísir/Getty
Juan Cuadrado í baráttunni við Jose Holebas.Vísir/Getty
Teofilas Gutiérrez fagnar marki sínu.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×