Sjálfstæðir Íslendingar: Lýðveldið á tímamótum Guðni Th. Jóhannesson skrifar 14. júní 2014 13:00 Margmenni Hátíðarhöld fyrir framan Stjórnarráðið, daginn eftir stofnun íslenska lýðveldisins., 18.júní 1944. Sjaldan hefur þjóð staðið eins þétt saman og Íslendingar gerðu á Þingvöllum 17. júní 1944. Þúsundir höfðu skundað þangað, aðrir voru á staðnum í anda. Lýðveldisstofnun var fagnað, bjart virtist fram undan. Sjálfsagt er að fagna núna þessum tímamótum, horfa bjartsýn fram á veg og vona að öllum sem búa á Íslandi muni vegna vel. Reynsla síðustu sjö áratuga getur ýtt undir slíkar vonir. En sagan sýnir okkur líka hvernig hægt er að misnota fortíðina til að skapa falska ímynd um stöðugar framfarir, einingu og yfirburði sjálfstæðra Íslendinga, og ekki síður hvernig hugmyndir um sjálfstæði þjóðarinnar hafa breyst og munu halda áfram að breytast.„Tröllpíndir af hefð…“ Þegar ráðamenn á Íslandi litu um öxl sumarið 1944 hömpuðu þeir ímyndaðri sýn á söguna. Hún hentaði hagsmunum þeirra og átti um leið hljómgrunn í hugum landsmanna. Sagt var að hingað hefðu haldið hetjur sem ekki hefðu þolað ok harðstjóra í Noregi og myndað eigið þjóðveldi, numið ný lönd, stofnað alþingi frjálsra manna, byggt saman blómlegar sveitir og samið einstakar sögur. Síðan hefði sundurlyndisfjandinn leitt til sjálfstæðismissis 1262 og við tekið aldalöng niðurlæging allra Íslendinga undir erlendri stjórn. Þjóðin hefði vaknað vonum seinna undir forystu Jóns Sigurðssonar og Fjölnismanna og barist einhuga fyrir því sjálfstæði sem náðist loksins 1944. Ein þjóð, ein saga. Sjálfstæði sem forsenda framfara, erlend yfirráð orsök hnignunar. Þetta var sú fortíðarsýn sem féll í kramið í sjálfstæðisbaráttunni en hún stóðst ekki tímans tönn. „Oft hefur mér fundist að sagnfræðíngum okkar dytti helsti fátt í hug. Tröllpíndir af hefð hneigjast þeir mest til að rekja sögur eftir þjóðhetjuformúlunni.“ Þannig komst Halldór Laxness að orði í Skáldatíma árið 1963 og breyttir tímar voru í vændum. Um okkar daga er margt dregið í efa sem áður þótti sannað. Fæstir – nema kannski ráðamenn á hátíðarstundum – ætlast núna til þess að rannsóknum á liðinni tíð skuli einkum ætlað að efla íslenskri þjóð kraft og þor.17. júní 1944, Hátíðarhöld á Þingvöllum í tilefni af stofnun íslenska lýðveldisins. Hópur fólks saman kominn á Þingvöllum vegna lýðveldisstofnunar. „Það sem sannara reynist…“ Höfum frekar það sem sannara reynist, það er hin sjálfsagða krafa samtímans. Sannfæring víkur fyrir efahyggju. Þá kemur upp úr kafinu að kannski voru sagnir af Haraldi hárfagra seinni tíma tilbúningur. Alþingi var samkoma hinna fáu og valdamiklu, sagnaarfurinn rótfastur í kristinni og evrópskri hefð. Endalok þjóðveldisins svokallaða voru líklega óhjákvæmileg, hnignun eftir 1262 orðum aukin og einfölduð. Og stóru skilin í samfélaginu lágu ekki milli útlendinga og Íslendinga heldur undirokaðs fjölda og fámennrar valdaklíku innfæddra sem erlendra. Sjálfstæðisvakningin á nítjándu öld var svo hluti alþjóðlegrar þróunar. Þá streittist íhaldssöm yfirstétt gegn ýmsum umbótum og varla nokkur maður sá fyrir sér að Íslendingar gætu orðið fullkomlega sjálfstæðir í náinni framtíð. Sumarið 1944 hefði mörgum þótt svona skrif jaðra við drottinssvik. Vonandi eru þeir færri sem hugsa þannig sjötíu árum síðar. En hvað með sögu lýðveldisins? Hana má vissulega sjá í hetjuljóma. Fólk er flest efnaðra, frjálsara og hraustara, lífskjör óvíða eins góð. Eitthvað réð þessum framförum. Freistandi væri að segja að Íslendingar hafi fundið kraftinn sem fólst í frelsinu og sjálfstæðir hafi þeir sameinast um sín þjóðþrifaverk. Þannig væri þó aðeins hálf sagan sögð, sleppt með öllu áhrifum að utan og ágreiningi innanlands. Stuðningur að utan Þegar Ísland gekk í Sameinuðu þjóðirnar árið 1946 var það langfámennasta aðildarríkið. Þeir voru til sem vefengdu að svo lítil þjóð gæti staðið á eigin fótum. Slíkar efasemdir voru ekki út í bláinn. Tæpum áratug fyrr glímdu landsmenn við afla- og markaðsbrest svo óttast mátti greiðsluþrot ríkisins. En þá kom „blessað stríðið“. Atvinnuleysi hvarf, stríðsgróðinn flóði um landið. En því miður kunnu menn ekki fótum sínum forráð. Öllu var eytt og enn blasti við greiðsluvandi ytra. Svartsýni og átök grúfðu yfir mannlífinu. Aftur kom hins vegar „gott stríð“, kalda stríðið, og Íslendingum var borgið. Þótt fáir í Evrópu kæmust eins vel úr hildarleik styrjaldarinnar fengum við margfalt meira Marshall-fé að tiltölu en nokkurt annað ríki. Hagstæð lán og gjafafé frá bandamönnum treystu efnahaginn áfram, að ekki sé minnst á herstöðina á Miðnesheiði. Hernaðarlegt mikilvægi Íslands í kalda stríðinu skipti sköpum. Þróun hafréttar var líka gulls ígildi. Í hálfa öld höfðu landsmenn þurft að þola óbreytt ástand, hina þröngu þriggja mílna landhelgi, vanmegnugir að breyta nokkru þar um. Frumkvæði ytra kom okkur til bjargar. Bandarísk stjórnvöld eignuðu sér eigið landgrunn árið 1945 og fjölmörg ríki Rómönsku-Ameríku fylgdu þegar í kjölfarið með kröfum um 200 mílna lögsögu, áratugum áður en sú leið var farin hér. Sovétríkin og Kína framfylgdu líka 12 mílna landhelgi og nýfrjáls ríki víða um heim færðu út sínar kvíar. Við vorum í þeim hópi, nutum baráttu annarra um leið og við sóttum okkar eigin rétt, að nokkru í skjóli Bandaríkjanna og NATO. Þorskastríð þurfti samt og öllum lauk þeim með samningum þótt lokasigurinn hafi verið ótvíræður. Þorskastríðin eru gjarnan sögð framhald sjálfstæðisbaráttunnar. Svo miklu skipta yfirráð yfir miðunum í íslenskri þjóðarsál að meirihluti landsmanna mun tæpast samþykkja aðild að Evrópusambandinu nema þau réttindi verði gulltryggð til frambúðar. Fólki finnst að annars verði sjálfstæði landsins orðin tóm. Hitt er annað mál að þeir sem komu saman í rigningunni á Þingvöllum fyrir sjötíu árum myndu ekkert endilega fallast á að Íslendingar samtímans njóti þess sjálfstæðis sem þeir sáu þá fyrir sér.Hlutleysi, herleysi og 1262 Lýðveldið var aðeins nokkurra ára gamalt þegar ráðandi skilgreiningu á sjálfstæði landsins var fyrst breytt. Sumarið 1944 sá fólk fyrir sér að Ísland yrði hlutlaust og herlaust um alla framtíð en kalda stríðið kollvarpaði þeim vonum. Fyrst var gengið í Atlantshafsbandalagið 1949 og tveimur árum síðar kom bandarískt herlið sér fyrir í landinu á nýjan leik. Í kenningum um stöðu ríkja í heiminum er gjarnan nefnt að þau geti ekki talist sjálfstæð nema þau búi yfir eigin herafla, þótt ekki sé nema til málamynda. Á Íslandi var slíkum sjónarmiðum hafnað að mestu. Sjálfstæðið var einfaldlega endurskilgreint eftir þörfum. Þeir sem voru til vinstri í stjórnmálabaráttunni staðhæfðu aftur á móti að sjálfstæði landsins hefði skerst. Sama sögðu þeir þegar erlendum stórfyrirtækjum var boðið að reisa hér álverksmiðjur. Efasemdir og mótmæli heyrðust líka þegar Ísland gekk í Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA, árið 1970. Enn meiri styrr varð þegar landið gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu árið 1994. Svo mikil urðu umskiptin á hagkerfi landsins og lagaramma að helst mátti líkja við Gamla sáttmála 1262 og þær breytingar sem honum fylgdu. „Önnur eins breyting hefur ekki orðið á íslenzkri löggjöf síðan á 13. öld þegar Járnsíða og síðar Jónsbók voru lögleiddar,“ sagði Sigurður Líndal prófessor réttilega. Við lýðveldisstofnun gátu menn ekki ímyndað sér að bein og óbein áhrif yfirþjóðlegs fyrirbæris á borð við Evrópusambandið yrðu eins mikil í landinu og raun ber vitni. Frá stofnun Evrópska efnahagssvæðisins hefur frekara vald verið framselt út fyrir landsteinana, svo mjög að það brýtur eflaust í bága við lýðveldisstjórnarskrána. En það er eins og margir yppi bara öxlum yfir því um leið og þeir endurskilgreina sjálfstæðið á ný.17. júní 1944, hátíðarhöld á Þingvöllum í tilefni af stofnun íslenska lýðveldisins. Hópur fólks saman kominn á Þingvöllum vegna lýðveldisstofnunar. Þingvellir, 17.júní, hátíðarhöld, 1944 *** Local Caption *** Lýðveldishátíðin 1944, Lýðveldið Ísland. Sjálfstæði í voða Haustið 2008, í hruninu mikla, blasti við greiðsluþrot ríkisins. Bjargbrúnin var enn þá nær en árin fyrir „blessað stríðið“ þegar allt var í voða. Með samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn urðu íslensk stjórnvöld að þola tímabundna skerðingu á efnahagslegu sjálfstæði sínu. Enn á eftir að leysa landið úr höftum þannig að íslenska ríkið geti talist jafnoki annarra á alþjóðavettvangi. Sjálfstæðið er skert nú um stundir nema það sé endurskilgreint enn eina ferðina.Verndaðir Íslendingar? Flestir hljóta að sjá að hugmyndir Íslendinga um sjálfstæði eru aðrar núna en þær voru sumarið 1944. Á sama hátt breytast blessunarlega skilgreiningar á þjóð og þjóðerni – og reyndar ekki aðeins skilgreiningarnar. Nær allir sem komu saman á Þingvöllum fyrir sjötíu árum höfðu fæðst á Íslandi, tilheyrðu hinni evangelísku lútersku þjóðkirkju, áttu aðeins íslensku sem móðurmál og fæstir höfðu búið erlendis um lengri eða skemmri tíma. Einsleitnin var yfirgnæfandi og mátti það breytast? Um þetta leyti og næstu áratugi var mörgum landsmönnum annt um að vernda allt sem íslenskt var. Þegar bandarískt herlið sneri á ný til landsins kröfðust ráðamenn þess á laun að „engir negrar“ kæmu hingað. Með vísun í tíðaranda og tortryggni smáþjóðar má útskýra þá kynþáttafordóma en alls ekki afsaka. Tunguna þurfti víst líka að verja fyrir erlendum „slettum“ og kanasjónvarpi. Halda þurfti í heiðri nafnahefð með því að neyða þá fáu útlendinga sem vildu íslenskan ríkisborgararétt til þess að afsala sér eigin nafni (og horfa fram hjá þeim Íslendingum sem báru ættarnöfn óáreittir). Og alger óþarfi þótti að hafa orð á því að sannir Íslendingar gætu ekki verið samkynhneigðir. Allt hefur þetta breyst. Sú hugmynd er horfin að ein þjóð skuli vera eins þjóð. Sem betur fer hefur meirihluti Íslendinga ekkert á móti því (eða hvað?) að íbúar þessa lands séu ólíkir á hörund, tilheyri hinum og þessum trúfélögum, séu hommar og lesbíur, heiti alls kyns nöfnum, tali með hreim, fæddir í fjarlægum löndum. Þjóð með sjálfstraust leitar eftir fjölbreytni, fleiri siðum og ólíku fólki.Það er svo bágt að standa í stað Þjóðir geta vart búið sér verri örlög en þau að streitast á móti öllum breytingum. Við höfum breyst og hugmyndir okkar um sjálfstæði í hörðum heimi hafa breyst. Þannig hefur okkur tekist að viðhalda hér samfélagi sem er með þeim vænlegustu á jörðinni. Við höfum líka notið góðs af samvinnu við önnur ríki og frumkvæði þeirra á ýmsum sviðum. Loks höfum við Íslendingar eflst og dafnað vegna ættjarðarástar, þeirrar djúpstæðu tilfinningar sem er svo dýrmæt í réttum mæli. En ástin á landi og þjóð má ekki verða svo mikil að búin sé til fölsk mynd af afrekum og kostum að fornu og nýju. Það væri háð en ekki lof. Mest lesið Vaktin: Bílaplanið þakið hrauni Innlent Sigmundur hafi viljað í kennslustund með nemendum Innlent Bættu krakkpípu við styttu Nínu Sæmundsson í Los Angeles Erlent Kosningavaktin: Íslendingar ganga að kjörborðinu Innlent Gætu kosið strategískt þegar svo margir flokkar eru á mörkunum Innlent Telur Bláa lónið öruggt vegna varnargarðanna Innlent Endalok goshrinunnar teygist inn á mitt næsta ár Innlent „Þetta var bara besta stund kosningabaráttunnar til þessa“ Innlent Funda áfram hjá sáttasemjara á morgun Innlent „Fólki er frekar misboðið“ Innlent Fleiri fréttir Sigmundur hafi viljað í kennslustund með nemendum Gætu kosið strategískt þegar svo margir flokkar eru á mörkunum Funda áfram hjá sáttasemjara á morgun „Fólki er frekar misboðið“ Gosið gætið varað í nokkrar vikur Endalok goshrinunnar teygist inn á mitt næsta ár Bílaplan á bólakafi, könnun og frambjóðanda misboðið Höfðu ekki áhyggjur af lóninu sjálfu Skilorðsbundinn dómur yfir strætóbílstjóra staðfestur Veit ekki hver getur tekið við gögnunum Refsing Jaguars þyngd verulega Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur takist á í bergmálshelli Samið um sjálfstæða leikskóla í Reykjavík Vilja byggja vísindasetur fyrir almenning í Háskólabíói Útlit fyrir að varnir Bláa lónsins haldi Hart tekist á um fyrirætlanir Heidelberg í Þorlákshöfn Bein útsending: Hver er sýn flokkanna á lífskjör eldra fólks? Verkföll boðuð í fjórum grunnskólum í janúar „Þetta var bara besta stund kosningabaráttunnar til þessa“ Komust langt að gosinu því það gleymdist að loka veginum Nýsköpun eða „rándýr aðgangur“?: 300.000 króna heilskimun aftur á boðstólnum Telur Bláa lónið öruggt vegna varnargarðanna Káfaði á konu á salerni skemmtistaðar Segir komið fram við sig eins og glæpamann fyrir að vilja vera heima í Grindavík „Ekki rólegur með hraunið ofan á“ Samfylkingin bætir við sig í fyrsta sinn síðan í maí og Píratar úti Varar við sprengjum á svæðinu við gosstöðvarnar Glóðvolg könnun og hraun rennur enn á ný Gandri fær grænt ljós Magnaðar myndir sýna Grindavíkurveg undir hrauni Sjá meira
Sjaldan hefur þjóð staðið eins þétt saman og Íslendingar gerðu á Þingvöllum 17. júní 1944. Þúsundir höfðu skundað þangað, aðrir voru á staðnum í anda. Lýðveldisstofnun var fagnað, bjart virtist fram undan. Sjálfsagt er að fagna núna þessum tímamótum, horfa bjartsýn fram á veg og vona að öllum sem búa á Íslandi muni vegna vel. Reynsla síðustu sjö áratuga getur ýtt undir slíkar vonir. En sagan sýnir okkur líka hvernig hægt er að misnota fortíðina til að skapa falska ímynd um stöðugar framfarir, einingu og yfirburði sjálfstæðra Íslendinga, og ekki síður hvernig hugmyndir um sjálfstæði þjóðarinnar hafa breyst og munu halda áfram að breytast.„Tröllpíndir af hefð…“ Þegar ráðamenn á Íslandi litu um öxl sumarið 1944 hömpuðu þeir ímyndaðri sýn á söguna. Hún hentaði hagsmunum þeirra og átti um leið hljómgrunn í hugum landsmanna. Sagt var að hingað hefðu haldið hetjur sem ekki hefðu þolað ok harðstjóra í Noregi og myndað eigið þjóðveldi, numið ný lönd, stofnað alþingi frjálsra manna, byggt saman blómlegar sveitir og samið einstakar sögur. Síðan hefði sundurlyndisfjandinn leitt til sjálfstæðismissis 1262 og við tekið aldalöng niðurlæging allra Íslendinga undir erlendri stjórn. Þjóðin hefði vaknað vonum seinna undir forystu Jóns Sigurðssonar og Fjölnismanna og barist einhuga fyrir því sjálfstæði sem náðist loksins 1944. Ein þjóð, ein saga. Sjálfstæði sem forsenda framfara, erlend yfirráð orsök hnignunar. Þetta var sú fortíðarsýn sem féll í kramið í sjálfstæðisbaráttunni en hún stóðst ekki tímans tönn. „Oft hefur mér fundist að sagnfræðíngum okkar dytti helsti fátt í hug. Tröllpíndir af hefð hneigjast þeir mest til að rekja sögur eftir þjóðhetjuformúlunni.“ Þannig komst Halldór Laxness að orði í Skáldatíma árið 1963 og breyttir tímar voru í vændum. Um okkar daga er margt dregið í efa sem áður þótti sannað. Fæstir – nema kannski ráðamenn á hátíðarstundum – ætlast núna til þess að rannsóknum á liðinni tíð skuli einkum ætlað að efla íslenskri þjóð kraft og þor.17. júní 1944, Hátíðarhöld á Þingvöllum í tilefni af stofnun íslenska lýðveldisins. Hópur fólks saman kominn á Þingvöllum vegna lýðveldisstofnunar. „Það sem sannara reynist…“ Höfum frekar það sem sannara reynist, það er hin sjálfsagða krafa samtímans. Sannfæring víkur fyrir efahyggju. Þá kemur upp úr kafinu að kannski voru sagnir af Haraldi hárfagra seinni tíma tilbúningur. Alþingi var samkoma hinna fáu og valdamiklu, sagnaarfurinn rótfastur í kristinni og evrópskri hefð. Endalok þjóðveldisins svokallaða voru líklega óhjákvæmileg, hnignun eftir 1262 orðum aukin og einfölduð. Og stóru skilin í samfélaginu lágu ekki milli útlendinga og Íslendinga heldur undirokaðs fjölda og fámennrar valdaklíku innfæddra sem erlendra. Sjálfstæðisvakningin á nítjándu öld var svo hluti alþjóðlegrar þróunar. Þá streittist íhaldssöm yfirstétt gegn ýmsum umbótum og varla nokkur maður sá fyrir sér að Íslendingar gætu orðið fullkomlega sjálfstæðir í náinni framtíð. Sumarið 1944 hefði mörgum þótt svona skrif jaðra við drottinssvik. Vonandi eru þeir færri sem hugsa þannig sjötíu árum síðar. En hvað með sögu lýðveldisins? Hana má vissulega sjá í hetjuljóma. Fólk er flest efnaðra, frjálsara og hraustara, lífskjör óvíða eins góð. Eitthvað réð þessum framförum. Freistandi væri að segja að Íslendingar hafi fundið kraftinn sem fólst í frelsinu og sjálfstæðir hafi þeir sameinast um sín þjóðþrifaverk. Þannig væri þó aðeins hálf sagan sögð, sleppt með öllu áhrifum að utan og ágreiningi innanlands. Stuðningur að utan Þegar Ísland gekk í Sameinuðu þjóðirnar árið 1946 var það langfámennasta aðildarríkið. Þeir voru til sem vefengdu að svo lítil þjóð gæti staðið á eigin fótum. Slíkar efasemdir voru ekki út í bláinn. Tæpum áratug fyrr glímdu landsmenn við afla- og markaðsbrest svo óttast mátti greiðsluþrot ríkisins. En þá kom „blessað stríðið“. Atvinnuleysi hvarf, stríðsgróðinn flóði um landið. En því miður kunnu menn ekki fótum sínum forráð. Öllu var eytt og enn blasti við greiðsluvandi ytra. Svartsýni og átök grúfðu yfir mannlífinu. Aftur kom hins vegar „gott stríð“, kalda stríðið, og Íslendingum var borgið. Þótt fáir í Evrópu kæmust eins vel úr hildarleik styrjaldarinnar fengum við margfalt meira Marshall-fé að tiltölu en nokkurt annað ríki. Hagstæð lán og gjafafé frá bandamönnum treystu efnahaginn áfram, að ekki sé minnst á herstöðina á Miðnesheiði. Hernaðarlegt mikilvægi Íslands í kalda stríðinu skipti sköpum. Þróun hafréttar var líka gulls ígildi. Í hálfa öld höfðu landsmenn þurft að þola óbreytt ástand, hina þröngu þriggja mílna landhelgi, vanmegnugir að breyta nokkru þar um. Frumkvæði ytra kom okkur til bjargar. Bandarísk stjórnvöld eignuðu sér eigið landgrunn árið 1945 og fjölmörg ríki Rómönsku-Ameríku fylgdu þegar í kjölfarið með kröfum um 200 mílna lögsögu, áratugum áður en sú leið var farin hér. Sovétríkin og Kína framfylgdu líka 12 mílna landhelgi og nýfrjáls ríki víða um heim færðu út sínar kvíar. Við vorum í þeim hópi, nutum baráttu annarra um leið og við sóttum okkar eigin rétt, að nokkru í skjóli Bandaríkjanna og NATO. Þorskastríð þurfti samt og öllum lauk þeim með samningum þótt lokasigurinn hafi verið ótvíræður. Þorskastríðin eru gjarnan sögð framhald sjálfstæðisbaráttunnar. Svo miklu skipta yfirráð yfir miðunum í íslenskri þjóðarsál að meirihluti landsmanna mun tæpast samþykkja aðild að Evrópusambandinu nema þau réttindi verði gulltryggð til frambúðar. Fólki finnst að annars verði sjálfstæði landsins orðin tóm. Hitt er annað mál að þeir sem komu saman í rigningunni á Þingvöllum fyrir sjötíu árum myndu ekkert endilega fallast á að Íslendingar samtímans njóti þess sjálfstæðis sem þeir sáu þá fyrir sér.Hlutleysi, herleysi og 1262 Lýðveldið var aðeins nokkurra ára gamalt þegar ráðandi skilgreiningu á sjálfstæði landsins var fyrst breytt. Sumarið 1944 sá fólk fyrir sér að Ísland yrði hlutlaust og herlaust um alla framtíð en kalda stríðið kollvarpaði þeim vonum. Fyrst var gengið í Atlantshafsbandalagið 1949 og tveimur árum síðar kom bandarískt herlið sér fyrir í landinu á nýjan leik. Í kenningum um stöðu ríkja í heiminum er gjarnan nefnt að þau geti ekki talist sjálfstæð nema þau búi yfir eigin herafla, þótt ekki sé nema til málamynda. Á Íslandi var slíkum sjónarmiðum hafnað að mestu. Sjálfstæðið var einfaldlega endurskilgreint eftir þörfum. Þeir sem voru til vinstri í stjórnmálabaráttunni staðhæfðu aftur á móti að sjálfstæði landsins hefði skerst. Sama sögðu þeir þegar erlendum stórfyrirtækjum var boðið að reisa hér álverksmiðjur. Efasemdir og mótmæli heyrðust líka þegar Ísland gekk í Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA, árið 1970. Enn meiri styrr varð þegar landið gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu árið 1994. Svo mikil urðu umskiptin á hagkerfi landsins og lagaramma að helst mátti líkja við Gamla sáttmála 1262 og þær breytingar sem honum fylgdu. „Önnur eins breyting hefur ekki orðið á íslenzkri löggjöf síðan á 13. öld þegar Járnsíða og síðar Jónsbók voru lögleiddar,“ sagði Sigurður Líndal prófessor réttilega. Við lýðveldisstofnun gátu menn ekki ímyndað sér að bein og óbein áhrif yfirþjóðlegs fyrirbæris á borð við Evrópusambandið yrðu eins mikil í landinu og raun ber vitni. Frá stofnun Evrópska efnahagssvæðisins hefur frekara vald verið framselt út fyrir landsteinana, svo mjög að það brýtur eflaust í bága við lýðveldisstjórnarskrána. En það er eins og margir yppi bara öxlum yfir því um leið og þeir endurskilgreina sjálfstæðið á ný.17. júní 1944, hátíðarhöld á Þingvöllum í tilefni af stofnun íslenska lýðveldisins. Hópur fólks saman kominn á Þingvöllum vegna lýðveldisstofnunar. Þingvellir, 17.júní, hátíðarhöld, 1944 *** Local Caption *** Lýðveldishátíðin 1944, Lýðveldið Ísland. Sjálfstæði í voða Haustið 2008, í hruninu mikla, blasti við greiðsluþrot ríkisins. Bjargbrúnin var enn þá nær en árin fyrir „blessað stríðið“ þegar allt var í voða. Með samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn urðu íslensk stjórnvöld að þola tímabundna skerðingu á efnahagslegu sjálfstæði sínu. Enn á eftir að leysa landið úr höftum þannig að íslenska ríkið geti talist jafnoki annarra á alþjóðavettvangi. Sjálfstæðið er skert nú um stundir nema það sé endurskilgreint enn eina ferðina.Verndaðir Íslendingar? Flestir hljóta að sjá að hugmyndir Íslendinga um sjálfstæði eru aðrar núna en þær voru sumarið 1944. Á sama hátt breytast blessunarlega skilgreiningar á þjóð og þjóðerni – og reyndar ekki aðeins skilgreiningarnar. Nær allir sem komu saman á Þingvöllum fyrir sjötíu árum höfðu fæðst á Íslandi, tilheyrðu hinni evangelísku lútersku þjóðkirkju, áttu aðeins íslensku sem móðurmál og fæstir höfðu búið erlendis um lengri eða skemmri tíma. Einsleitnin var yfirgnæfandi og mátti það breytast? Um þetta leyti og næstu áratugi var mörgum landsmönnum annt um að vernda allt sem íslenskt var. Þegar bandarískt herlið sneri á ný til landsins kröfðust ráðamenn þess á laun að „engir negrar“ kæmu hingað. Með vísun í tíðaranda og tortryggni smáþjóðar má útskýra þá kynþáttafordóma en alls ekki afsaka. Tunguna þurfti víst líka að verja fyrir erlendum „slettum“ og kanasjónvarpi. Halda þurfti í heiðri nafnahefð með því að neyða þá fáu útlendinga sem vildu íslenskan ríkisborgararétt til þess að afsala sér eigin nafni (og horfa fram hjá þeim Íslendingum sem báru ættarnöfn óáreittir). Og alger óþarfi þótti að hafa orð á því að sannir Íslendingar gætu ekki verið samkynhneigðir. Allt hefur þetta breyst. Sú hugmynd er horfin að ein þjóð skuli vera eins þjóð. Sem betur fer hefur meirihluti Íslendinga ekkert á móti því (eða hvað?) að íbúar þessa lands séu ólíkir á hörund, tilheyri hinum og þessum trúfélögum, séu hommar og lesbíur, heiti alls kyns nöfnum, tali með hreim, fæddir í fjarlægum löndum. Þjóð með sjálfstraust leitar eftir fjölbreytni, fleiri siðum og ólíku fólki.Það er svo bágt að standa í stað Þjóðir geta vart búið sér verri örlög en þau að streitast á móti öllum breytingum. Við höfum breyst og hugmyndir okkar um sjálfstæði í hörðum heimi hafa breyst. Þannig hefur okkur tekist að viðhalda hér samfélagi sem er með þeim vænlegustu á jörðinni. Við höfum líka notið góðs af samvinnu við önnur ríki og frumkvæði þeirra á ýmsum sviðum. Loks höfum við Íslendingar eflst og dafnað vegna ættjarðarástar, þeirrar djúpstæðu tilfinningar sem er svo dýrmæt í réttum mæli. En ástin á landi og þjóð má ekki verða svo mikil að búin sé til fölsk mynd af afrekum og kostum að fornu og nýju. Það væri háð en ekki lof.
Mest lesið Vaktin: Bílaplanið þakið hrauni Innlent Sigmundur hafi viljað í kennslustund með nemendum Innlent Bættu krakkpípu við styttu Nínu Sæmundsson í Los Angeles Erlent Kosningavaktin: Íslendingar ganga að kjörborðinu Innlent Gætu kosið strategískt þegar svo margir flokkar eru á mörkunum Innlent Telur Bláa lónið öruggt vegna varnargarðanna Innlent Endalok goshrinunnar teygist inn á mitt næsta ár Innlent „Þetta var bara besta stund kosningabaráttunnar til þessa“ Innlent Funda áfram hjá sáttasemjara á morgun Innlent „Fólki er frekar misboðið“ Innlent Fleiri fréttir Sigmundur hafi viljað í kennslustund með nemendum Gætu kosið strategískt þegar svo margir flokkar eru á mörkunum Funda áfram hjá sáttasemjara á morgun „Fólki er frekar misboðið“ Gosið gætið varað í nokkrar vikur Endalok goshrinunnar teygist inn á mitt næsta ár Bílaplan á bólakafi, könnun og frambjóðanda misboðið Höfðu ekki áhyggjur af lóninu sjálfu Skilorðsbundinn dómur yfir strætóbílstjóra staðfestur Veit ekki hver getur tekið við gögnunum Refsing Jaguars þyngd verulega Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur takist á í bergmálshelli Samið um sjálfstæða leikskóla í Reykjavík Vilja byggja vísindasetur fyrir almenning í Háskólabíói Útlit fyrir að varnir Bláa lónsins haldi Hart tekist á um fyrirætlanir Heidelberg í Þorlákshöfn Bein útsending: Hver er sýn flokkanna á lífskjör eldra fólks? Verkföll boðuð í fjórum grunnskólum í janúar „Þetta var bara besta stund kosningabaráttunnar til þessa“ Komust langt að gosinu því það gleymdist að loka veginum Nýsköpun eða „rándýr aðgangur“?: 300.000 króna heilskimun aftur á boðstólnum Telur Bláa lónið öruggt vegna varnargarðanna Káfaði á konu á salerni skemmtistaðar Segir komið fram við sig eins og glæpamann fyrir að vilja vera heima í Grindavík „Ekki rólegur með hraunið ofan á“ Samfylkingin bætir við sig í fyrsta sinn síðan í maí og Píratar úti Varar við sprengjum á svæðinu við gosstöðvarnar Glóðvolg könnun og hraun rennur enn á ný Gandri fær grænt ljós Magnaðar myndir sýna Grindavíkurveg undir hrauni Sjá meira