Innlent

Einar Boom stefnir íslenska ríkinu: Gæsluvarðhald olli kvíða, angist og vanlíðan

Ingvar Haraldsson skrifar
Einar Boom segir andlegri heilsu hans hafa hrakað mjög eftir fimm mánaða gæsluvarðhald.
Einar Boom segir andlegri heilsu hans hafa hrakað mjög eftir fimm mánaða gæsluvarðhald. vísir/anton brink
Í dag var angi af skaðabótamáli Einars Inga Marteinsonar, einnig þekktur sem Einar Boom, gegn íslenska ríkinu þingfestur í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Einar stefndi íslenska ríkinu vegna þess að hann sat í gæsluvarðhaldi í rúmlega fimm mánuði á fyrri hluta ársins 2012. Einar var á þeim tíma formaður íslensku mótorhjólasamtakanna Hells Angels. Hann var ákærður fyrir að eiga aðild að líkamsárás og kynferðisbroti en var sýknaður í Hæstarétti.

Einar segist hafa orðið fyrir miklum skaða vegna rannsóknar lögreglu, handtöku, húsleitar á heimili hans og gæsluvarðhaldi. Lögfræðingur Einars hefur beðið um að dómskvaddir matsmenn verði skipaðir til að úrskurða um hve miklum skaða gæsluvarðhaldið hefur valdið honum.

Í matsbeiðninni segir að fangelsisvistin hafi tekið mjög á Einar: „Frelsissviptingin olli honum miklum kvíða, angist og vanlíðan.“ Það á einnig að hafa verið Einar mjög þungbært að vera sleppt úr gæsluvarðhaldi þann 6. júní en vera svo aftur hnepptur í gæsluvarðhald tveimur dögum síðar.

Þar að auki segir:„Matsbeiðanda  [Einari] leið verulega illa á meðan gæsluvarðhaldi stóð. Um fimm mánaða skeið hafði hann sífelldar áhyggjur af framtíðinni, framtíð fjölskyldu sinnar og afkomumöguleikum. Fyrstu fjórar vikur gæsluvarðhaldsins fékk matsbeiðandi ekki að hitta konu sína og börn.“

Því er bætt við að andlegu ástandi Einars hafi hrakað verulega þegar leiða á vistina. Hann hafi orðið þunglyndur og líklega með áfallastreyturöskun og svefntruflanir.

Að lokum er því bætt við í matsbeiðninni að Einar þjáist nú af kæfisvefni sem hafi ekki verið raunin áður en hann var skipaður í gæsluvarðhald. Einar sé að bíða eftir öndunarvél til að hjálpa honum með svefn en hann hefur leitað aðstoðar sérfræðinga í svefnröskunum, lungnasérfræðinga og geðlækna vegna vandans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×